Þegar lögreglan vill refsa saklausum

Nú er mikið rætt um leit lögreglunnar að vímuefnum á tónlistarhátíð. Lögreglan vill sem mest úr því gera hve mikið fannst af þeim, Snarrótin úr því hve illa fólk er upplýst um réttindi sín, og lögleiðingarsenan úr því hve heimskuleg leitin er til að byrja með.

Júlía Birgisdóttir lýsti aðkomunni á tónlistarhátíðinni.

Ég tók ekki eftir því að neinum væru kynnt sín réttindi. Lögreglumennirnir komu einfaldlega upp að fólki og þremur sekúndum seinna var fólkið búið að rétta út hendurnar og lögreglan farin að leita í vösum fólksins.

Augljósa svarið er: hvað hefði fólk átt að gera? Segja nei við lögguna? Yfirlögregluþjónn borgarinnar varði þessar aðgerðir með vísun í lög sem leyfa lögreglu að leita að “vopnum eða öðrum hættulegum munum” í þágu uppihalds laga og reglna. Ef maður verður ekki við þessu er maður að brjóta lög, enda er hverjum manni “skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur”.

Allir sem ég ræði við um þessi mál segja bara að ef maður er saklaus borgi sig ekki að vera með mótþróa, og ef maður er sekur sé allt tapað hvort eð er. Erum við þá með einhver réttindi?

Í stuttu máli: nei. Jafnvel ef leitin er ólögleg má kæra mann með því sem finnst, því “mat dómara á sönnunargildi muna, sem aflað hefur verið með ólögmætum hætti, er frjálst”. Hafi maður upphaflega nennt að eyða deginum í að verja rétt sinn gegn ágengri löggu fær maður svo dýrlegt tækifæri til að njóta sín í lögsókn á hendur ríkinu um réttmæti leitarinnar. Dæmi um slíkt er mál frá árinu 2000, þar sem réttlát reiði knúði Hilmar Ögmundsson til að ausa sexhundruð þúsund krónum í að véfengja húsleit, skyrturán og gæsluvarðhald sem lögreglan hafði framkvæmt á honum. Hann fékk hálfa skyrtuna og fimmtíu þúsund krónur greiddar.

Hafi lögreglan svo eitthvað sérstakt á móti þér má alltaf handtaka þig fyrir óhlýðnast, sekta þig fyrir það uppað hálfri milljón, læsa þig inni í þágu einhverrar rannsóknar, kæra þig fyrir allt sem hönd á festir eða leita í húsinu þínu án heimildar, sem hefur engar afleiðingar fyrir lögregluna en er algjört helvíti fyrir þann sem liggur undir því. Í þau örfáu skipti sem kærur gegn lögreglunni ná fram að ganga og lögreglan er sakfelld er það ríkissjóður sem borgar, en lengra nær armur réttvísinnar ekki.

Almannavitundin hér á landi er sú að þú hafir ekkert að óttast ef þú ert saklaus. Þetta er rangt. Þú hefur ekkert að óttast ef lögreglan telur þig saklausan.

Myndin er fengin héðan.