Tilfinningalausa skynsemi í stjórnsýslu!

Nýlega var mér bent á að stjórnmálaskoðun mín væri byggð á tilfinningum. Þetta þótti mér bráðfyndin athugasemd. Hvaða stjórnmálaskoðun er það ekki? Og á hverju öðru ætti að byggja slíkar skoðanir?

Algengasta svarið er eitthvað á borð við “rök” eða “skynsemi”. Þó hef ég aldrei heyrt neinn mæla með “tilfinningalausri skynsemi” í stjórnsýslu. Skynsemi er jú bara hæfnin til að ná markmiðum sínum án óþarfa tilkostnaðar, en hún sjálf skilgreinir ekki markmiðin. Einn maður getur náð því sem annar kallar vond markmið af mikilli skynsemi, einsog Bond-illmennin eða Adolf Hitler á sínum betri árum.

Manneskjur eru nefnilega, öfugt við eðlisfræðina, með mörg og breytileg gildi. Þótt fáir mótmæli “heiðarleika, jafnrétti, virðingu og réttlæti” býr Satan í smáatriðunum: útfærsla og túlkun “réttlætis” í ákveðnum aðstæðum er ekki óumdeild eða vel skilgreind.

Það er erfitt að vera ósammála þessu.

Það er erfitt að vera ósammála þessu.

Þetta er allt auðséð með andartaks umhugsun, og í raun undarlegt að það þurfi að taka það fram. Í þessu tilviki þurfti ég þess engu að síður, og hreinskilni andsvarsins var hressandi.

Umræðuefnið var nefnilega opnun landamæra – hvort leyfa ætti stökum flóttamanni að búa hér á landi. Mér var sagt að það væri ómögulegt (og óskynsamlegt) að miða við þörf hans á vernd, því flóttamenn eru svo margir, og varla getum við leyft þeim öllum að koma! Fyrir því eru jú réttlætissjónarmið að láta eitt yfir alla ganga, og ef ekki allir mega koma hingað er hinn kosturinn að enginn megi það.

Rök, ekki tilfinningar.

Hinn möguleikinn úr þessari ljótu klípu væri að miða við “hagsmuni landsins”: við tökum þá flóttamenn sem við þörfnumst, ekki fleiri. Þetta er vissulega skynsamleg og rökföst niðurstaða ef ráðandi gildi í stjórnmálum er eigingirni.

Svarið sem ég aðhyllist er að hleypa öllum hingað sem vilja koma – ferðafrelsi fyrir alla, líka þriðjaheims fátæklinga. Það er af mörgum kallað óskynsamlegt, því það gæti valdið okkur svo miklum vandræðum, til dæmis tungumálaerfiðleikum og aukakostnaði í velferðarkerfinu. Það að vandræði útlendinganna séu allt frá hungursneyð uppí þjóðarmorð skiptir ekki miklu, enda eru það okkar hagsmunir sem skipta máli, ekki þeirra.

Enginn montar sig samt af eigingirni, svo hún er yfirleitt kölluð öðrum og glæsilegri nöfnum: “vörn okkar hagsmuna”, eða einmitt “skynsemi”. Best er auðvitað þegar ekkert er talað um hana meðan allir iðka hana af áfergju. Þannig getum við lifað í þægindum í friði án samviskubits. Landamærastefna vesturlanda er sem fyrr segir dæmi um þessa taktík, en sömu sögu má segja um hina gegndarlausu olíubrennslu iðnvæddra landa.

Það er kannski tóm tilfinningasemi að berjast gegn útskúfun flóttamanna og fyrir verndun náttúrunnar. En það er rugl að kalla hið gagnstæða “skynsemi”.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>