Draumar

Ég rakst nýverið á yfirlitsgrein fíkniefnalögreglunnar um LSD. Lýsingin á vímunni vakti mig til umhugsunar um miklu brýnna og hættulegra ástand sem fólk kemur sér reglulega í, fíkn sem er mikið rætnari og útbreiddari en LSD-víman.

Draumar.

Sú staðreynd að draumar séu mjög hættulegir er viðurkennd um allan heim. Beinn líkamlegur skaði af þeirra völdum er ekki svo ýkja mikill, en sálræn útreið er skelfileg.

Margar skýrslur sýna að undir áhrifum drauma hefur sofandi fólk gjörsamlega misst alla stjórn, það heldur sig jafnvel geta flogið, hefur hengt sig og hoppað út um glugga, og við það beðið bana eða stórslasast. Morð og sjálfsmorð hafa verið framin undir áhrifum.

Skelfingaræði fylgir oft draumum. Sumir verða helteknir nagandi ótta sem brýtur niður alla venjulega varnarmúra. Margir verða skelfingu lostnir og finnst þeir ekki eiga neinnar undankomu auðið frá þessu “myrka trippi”, eða “night mare”. Við þessu eru engin ráð, enda er líkami dreymandans sem lamaður.

Draumar eru ofskynjunarástand, eins og þegar er komið fram. Þeir geta einnig orsakað andlega brenglun af ýmsu tagi, t.d. áfallastreituröskun og langvarandi svefnskort. Á dreymandanum hvílir þá þunglyndi og streita, hann verður fyrir skerðingu á starfshæfni og andleg geta minnkar til muna. Það er áríðandi að forðast návist við dreymandi fólk. Ofbeldið gerir lítil boð á undan sér, og svefngenglar í bræðisham ráðast á hvað sem stendur þeim næst. Þá getur verið nauðsynlegt að hringja á lögregluna.

Hræðsla við drauma getur valdið því að börn, helstu fórnarlömb þessarar vár, forðast jafnvel svefn, sem leiðir til skelfilegra og óafturkræfra heilaskemmda.

Það er augljóst að dreymandi fólk getur skapað talsverða hættu í umferðinni, til dæmis við akstur. Veruleikaskyn er sljóvgað og brenglað. Jafnvel þótt viðkomandi hafi ekki dreymt mánuðum saman getur ástandið fyrirvaralaust brostið á aftur. Hættan getur skapast hvar sem er vegna þessara “flashback” áhrifa.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>