Stefna Íslands í útlendingamálum

Nýlega lýsti Kristín Völundardóttir, forstjóri Útlendingastofnunar, því yfir, að yfirvöld hefðu enga skriflega stefnu í útlendingamálum. “Útlendingastofnun hefur enga stefnu í málefnum innflytjenda, heldur framfylgir lögum,” sagði hún svo annarsstaðar.

Þótt yfirvöld hafi enga stefnu í þessum málum er þó augljóst að mikið er gert í þeim. Útlendingar fá sérstaka opinbera málsmeðferð, sína eigin ríkisstofnun og þeim er oft vísað úr landi. Einhver regla er í þessari meðferð, og ef hún er ekki til í orðum þarf maður að greina hana úr gjörðum yfirvalda. Við það koma nokkrir megindrættir í ljós.

Helst ekki læti
Þótt Íslendingar komist upp með að mótmæla og jafnvel vera með læti utandyra á Íslandi er illa séð ef útlendingar gera það. Sumarið 2005, eftir að íslensk náttúruverndarsamtök höfðu reynt að stoppa smíði Kárahnjúkavirkjunar með andmælum, komu hingað erlendir náttúruverndarsinnar. Þeir reyndu að stoppa smíðina í verki, þó án þess að ráðast á fólk. Fyrir það voru þeir handteknir og áreittir og lögregla fór ítrekað fram á að þeim yrði vísað úr landi. Í fátinu reyndi hún jafnvel að fá EES-lendingum hent héðan. Einni konu var síðar gert það að sök að hafa “ógnað grundvallargildum samfélagsins”, sem átti að nægja til að vísa henni brott. Útlendingastofnun reyndi svo um haustið að reka þau öll sem eitt í burtu þótt flest þeirra væru þegar farin. Þeim úrskurði var ætlaðhindra að þau kæmust hingað aftur.

Maður handtekinn fyrir að mótmæla álveri í verki

Maður handtekinn fyrir að mótmæla álveri í verki

Þessi viðkvæmni náði ekki aðeins til virkjanasmíði. Vorið 2002 bauð íslenska ríkið, með Davíð Oddsson í broddi fylkingar, Jiang Zemin, aðalritara kínverska kommúnistaflokksins, í heimsókn. Þessi maður er sekur um ofsóknir gegn lífspekihreyfingunni Falun Gong, en iðkendur spekinnar eru í Kína ofsóttir, handteknir, pyntaðir, drepnir, þeim nauðgað og líffærum stolið úr þeim. Þessum manni mátti ekki mótmæla. Til að hindra það var öllum meðlimum Falun Gong bannað að koma til landsins. Þar sem Falun Gong heldur enga meðlimaskrá gaf kínverska ríkið með glöðu geði sínar skrár, sem höfðu fengist með njósnum. Ríkið braut persónuverndarlög og gaf Flugleiðum skrána, og sagði þeim að hleypa þessu fólki hvergi um borð.

Í Leifsstöð beið svo lögreglan þeirra sem sluppu gegnum netið. Allt skáeygt fólk var tekið úr röðum og yfirheyrt um trúarskoðanir sínar. Sjötíu og fimm manns voru svo læstir inni í Njarðvíkurskóla í einn og hálfan sólarhring. Yfirvöld neituðu um tíma að þetta væri yfirhöfuð að gerast.

Strákur fastur í Njarðvíkurskóla. Júlíus hjá Morgunblaðinu tók.

Fólkinu var sleppt úr haldi gegn yfirlýsingu um að þau myndu hvergi mótmæla, allsstaðar hlýða lögreglu og bara æfa Falun Gong á þremur blettum í bænum – þó ekki fleiri en tíu í einu á tveimur þeirra.

Einn Kínverjinn gerðist þó svo djarfur að kalla upphátt “Falun er gott!” þegar Jiang Zemin heyrði til. Hann var umsvifalaust leiddur burt af lögreglunni, með dyggu liðsinni kínverskra öryggisvarða.

Ríkið getur ekki leyft sér að banna Íslendingum svona hluti. Þeir hafa kosningarétt og allskonar mannréttindi sem er miklu erfiðara að brjóta á. Þeir geta líka kært eftirá, annað en útlendingarnir sem vísað er burt, eða ekki einusinni hleypt í landið.

Helst ekki flóttamenn
Vegna legu Íslands, lengst norðurí hrollköldu hafi, er lítið um hælisumsóknir hérna. Flesta flóttamenn rekur á strendur miðjarðarhafsríkja, einsog Ítalíu og Grikklands, og hrannast þeir þar í fangabúðir. Þrátt fyrir að Ísland sé þannig vel skjaldað er þeim örfáu flóttamönnum sem hingað sækja bolað burt. Í fyrra úrskurðaði Útlendingastofnun um tæplega tvöhundruð hælisumsóknir, og synjaði sirka 95% þeirra. Þessi léttlynda elja nær líka til innanríkisráðuneytisins, sem staðfestir nær allar ákvarðanir þessa mannvonda barns síns.

Helst refsa þeim
Margir flóttamannanna sem hingað koma eru á leið til Kanada. Þeir koma iðulega á fölsuðum skilríkjum, einsog vænta má af fólki í þeirra stöðu. Þetta telur ríkið vera glæp, og fleygir mönnunum beint í fangelsi. Þetta er í trássi við réttindi flóttamanna, tryggðum með samningi sem íslenska ríkið viðurkennir en hlýðir ekki. Þannig komast flóttamennirnir ekki áfram og enda á að sækja hér um hæli.

Pia Prytz Phiri frá flóttamannahjálp Sameinuðu Þjóðanna, sem benti Íslendingum á hve oft þeir brytu mannréttindasáttmála. Sigtryggur Ari hjá DV tók.

Pia Prytz Phiri frá flóttamannahjálp Sameinuðu Þjóðanna, sem benti Íslendingum á hve oft þeir brytu mannréttindasáttmála. Sigtryggur Ari hjá DV tók.

Meðan þeir bíða hér er svo farið með þá eins og réttlausan minnihlutahóp í harðræðisríki, þeir eru handteknir af minnstu ástæðu, áreittir ef aðrir flóttamenn fara í felur, rægðir af yfirvöldum, þeim bannað að hitta lögmenn sína við handtöku og þeir loks sendir til landa þar sem mannréttindi þeirra verða fyrirsjáanlega brotin.

Helst banna þeim að vinna
Í lögum um atvinnuréttindi útlendinga segir að þeir megi ekki vinna hér nema enginn finnist í starfið “hvorki á innlendum vinnumarkaði né innan Evrópska efnahagssvæðisins, EFTA-ríkja eða Færeyja”. Lögin krefja atvinnurekandann bókstaflega til að leita “með aðstoð Vinnumálastofnunar” í fimmhundruð milljón manna samfélagi að einhverjum, bara einhverjum, sem getur tekið starfið að sér frekar en útlendingurinn.

Flóttamenn sem bíða hér eftir hæli eru undirseldir þessari löggjöf einsog aðrir, og er ríkið því tilneytt til að gefa þeim húsaskjól og ölmusu svo þeir tóri á meðan. Biðtíminn er iðulega margir mánuðir eða ár. Á þeim tíma fá flóttamennirnir lítið tækifæri til að læra íslensku – einn mánuð, að mér skilst – og ef þeir kunna ekki málið sem kennt er á er það þeirra vandamál.

Helst ekki fá þá
Einfaldasta leiðin til að leysa útlendingavandann er að hafa enga útlendinga. Þetta var lausnin sem ríkið reyndi árið 2002, og hún var líka notuð þegar gyðingar reyndu að fá hér skjól frá ofsóknum nasista fyrir seinni heimsstyrjöld. Í báðum tilfellum var hundruðum saklausra manna ekki einusinni leyft að koma innfyrir landsteinana, því það hefði einfaldlega verið vesen. Marga Íslendinga, og þá helst ríkið, langar ekki í þetta vesen. Það er gleðispillir að hafa einhverja babblandi svertingja arkandi um landið okkar einsog þeir eigi það. Maður þarf ekki að vera vondi kallinn, maður þarf ekki einusinni að tala um þetta, ef fólkið kemst ekki hingað til að byrja með.

Þess vegna vinnur innanríkisráðuneytið nú hörðum höndum að því að innleiða hér 48-stunda regluna. Með henni er ákveðið innan tveggja sólarhringa hvort manneskja fái að sækja hér um hæli eða ekki. Þetta er gert með því að gá hvort landið sem manneskjan kemur frá sé land sem við teljum “öruggt”. Í slíku landi hljóta allir að geta búið, og aldrei ætti neinn að þurfa að flýja þaðan.

Hanna Birna í þann mund sem hún tjáði alþjóð 48-stunda lausnina

Hanna Birna í þann mund sem hún tjáði alþjóð 48-stunda lausnina

Þessi 48-tíma aðferð er notuð í nokkrum löndum. Í fyrra bætti Sviss löndunum Kósóvó og Georgíu á lista “öruggra landa”, sem krefst nokkurs ímyndunarafls. Íslendingar hafa þó lítið efni á að gagnrýna það, enda ætlaði ríkið árið 2012 að senda þræl aftur til heimalands síns, því þar var þrælahald ólöglegt og því gæti hann ekki hafa verið slíkur. Aðferðin hefur auk þess verið gagnrýnd fyrir þann augljósa galla að 48 tímar eru ekki nægjanlegir fyrir neins konar athugun eða meðferð, hvort sem hún er læknisfræðileg eða annars konar.

Helst ekki tala um þá
Þegar allt kemur til alls er 48-tíma aðferðin ekki lausn fyrir flóttamenn, heldur fyrir yfirvöld. Það er þeim ljár í þúfu hve lengi hælisleitendur eru hér, og að um þá sé fjallað á meðan. Nú skal bundið fyrir það, þeir reknir burt áður en nokkur getur sagt neitt. Við getum þá hætt að níðast á þeim, hætt að handtaka þá, þurfum ekki að banna þeim að vinna. Þeir hverfa bara út í veröldina, sem getur haft með þá sína hentisemi. Málaflokkurinn myndi einfaldlega gufa upp fyrir augum okkar. Og mikið þætti Hönnu Birnu það nú gott.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>