Hanna Birna. Myndin fengin hjá Viðskiptablaðinu.

Ekki fleiri brottvísanir!

Síðasta ár var slæmt fyrir flóttamenn á Íslandi. Trekk í trekk voru þeir handteknir, svívirtir af lögreglumönnum, teknir frá fjölskyldum sínum og þeim meinað að tala við lögmenn sína. Andúð Íslendinga dundi á þeim í kommentakerfum, en líka í orðum stjórnmálamanna og forstjóra Útlendingastofnunar. Loks voru þeir svo reknir úr landi af ótrúlegri elju: 93,5% umsókna um hæli var synjað frá janúar til september í fyrra – 128 manns.

Þetta eru óþolandi tölur, ekki síst því í mörgum þessara mála tók ríkið ekki einu sinni viðtal við hælisleitendurna. Þeim var vísað burt því annað ríki hafði tekið viðtal og ekki fundist manneskjan nógu álitleg. Á þennan dóm treysti ríkið. Þó er meðferð hælisumsókna í öðrum Evrópulöndum engu síður vítaverð en hér heima, eins og fjölmörg hjálparsamtök hafa bent á.

Í takt við það hafa nokkrir flóttamenn unnið mál fyrir íslenskum dómstólum, þar sem sýnt var fram á gallaða málsmeðferð. Þeim hafði verið vísað brott þó þeir ættu rétt á vernd. Flestir eru þó ekki svo heppnir, enda er erfitt að reka mál fyrir dómi ef maður hefur verið rekinn úr landinu.

Þrátt fyrir að í mörgum hælisumsóknum sé engin efnisleg meðferð tekur biðin eftir úrskurði marga mánuði eða ár. Úrskurðina má svo kæra, sem aftur tekur ótrúlega langan tíma. Hælisleitendum er ekki leyft að vinna á meðan. Þannig knýr ríkið þá til þess að þiggja ölmusu svo misserum skipti. Eðlilega er málaflokkurinn því dýr: 600 milljón krónur á ári, samkvæmt innanríkisráðherra.

Öll þessi vandamál mætti leysa á einu bretti.

Fyrst verður ríkið að hætta brottrekstri hælisleitenda héðan. Það er ekki í lagi að reka fólk héðan á grundvelli lélegrar málsmeðferðar, unninni af alvarlega undirmannaðri stofnun, oft á grundvelli lélegra og hæpinna gagna. Þetta fólk kemur iðulega frá fátækustu og stríðshrjáðustu löndum heims, og ætti einfaldlega að fá að njóta vafans.

Næst væri hægur leikur að hætta að banna þeim að vinna. Þetta virðist vera mögulegt þegar fólk kemur frá hinu helga landi EES, og ætti að vera hægt fyrir hælisleitendur líka. Þá hefðu þeir eitthvað við að vera alla þessa mánuði, og það myndi létta talsvert byrðina á ríkissjóði.

Loks mætti, ef tilefni þykir til, hefja vandvirka efnislega meðferð hælisumsókna. Það myndi kosta pening og taka tíma. Það er líka ekki nauðsynlegt – eins og fyrr segir er fólki leyft að búa hér ef það kemur frá EES. Ríkið þarf ekki endilega að eyða fé í að rannsaka hverja megi reka úr landi. En ef það á að gera það, er nauðsynlegt að það sé gert af vandvirkni og yfirvegun. Ekki með fáti og grimmd.

Myndin af Hönnu Birnu, innanríkisráðherra, er fengin hjá Viðskiptablaðinu.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>