Frá Fréttablaðinu - Pjetur tók

Ghasem og fyrsta-heims rasisminn

Í kommentalandi er ættbálkur sem telur að það sé voða gaman að bíða eftir hæli hér á landi. Það er rangt. Sennilega hafa fæstir þeirra kynnst hælisleitendum. Kommentararnir eru haldnir tryllingslegri trú að þeirra álits sé þörf í öllum málum, alveg sérstaklega þeim þeim sem þeir vita ekkert um. Til dæmis hefur ekki mátti ekki birtast frétt um hungurverkfall Ghasem Mohamadi, sem varla nokkur Íslendingur hefur yrt á, án þess að fordómaflaumurinn brysti á fréttinni einsog stórfljót.

Meðal þeirra Íslendinga sem aldrei hafa talað við hann eru þeir sem taka sér ákvörðunarvald yfir lífi hans. Í þeim geira virðist ríkja sú skoðun að það sé ofsaleg gæska að “leyfa” flóttamönnum að vera hérna. Með öðrum orðum, það er einhverskonar hlutleysi að reka fólk úr landi í lögreglufylgd, og það er sérlega fallega gert að láta það bara vera. Ennfremur þykir ekkert tiltökumál að banna þeim að vinna hérna á meðan þeir bíða, hvort sem það tekur nokkra mánuði eða mörg ár.

Á meðan eru hælisleitendurnir úthúðaðir sem letingjar, auðnuleysingjar og sníkjudýr, því þeir húka í félagslegum íbúðum sem þeim er skipað að þiggja.

Þeir tala ekki íslensku, enda fá þeir nánast engin tækifæri til að læra hana, og eru aftur skammaðir fyrir það. Þeir hafa ekki kosningarétt, nánast enga leið til að tjá sig opinberlega, og eru skiljanlega lafhræddir við að styggja yfirvöldin sem ráða lífi þeirra.

Allan þann tíma sem Ghasem hefur svelt sig hefur enginn með nokkurt vald komið til hans – bara fjölmiðlafólk, vinir og þjónustuaðilar. Hanna Birna tjáir sig ábúðarfull um hve óþolandi það sé að hann þurfi að bíða svona lengi.

Samt var Ghasem ekki að biðja um stytta málsmeðferð, heldur betri. Ef hælisleitendur vildu bara skjótari málsmeðferð myndu flestir þeirra bara fara strax héðan aftur. Það er þó ekki tilfellið. Þeir hanga í voninni mánuð eftir mánuð, ár eftir ár, að Ísland bjargi þeim frá grimmu hlutskipti. En það er ekki álitið mikilvægt.

Stór hópur Íslendinga, mögulega meirihluti, telur hælismál ekki snúast um hælisleitendur. Þetta á að snúast um hverja við viljum fá “hingað inn”. Hinir geta bara farið aftur “þaðan sem þeir komu”, í ástandið sem þeir hljóta að vera vanir. Ekki getum við tekið við þeim öllum! Af hverju? Af því bara! Það væri ekki þjóðfélagið sem við viljum, það myndi ekki virka, þeir myndu bara allir rotta sig saman með sínum útlendingaháttum og það myndi allt enda í skelfingu. Skelfingin sem rak þá hingað er látin liggja milli hluta.

Þetta er hinn vestræni rasismi í hnotskurn. Samfélagið sem við viljum er í fyrsta sæti. Þriðjaheimssvertingjar eiga bara að vera heima hjá sér. Þá getum við vorkennt þeim í friði, án þess að þurfa að gera neitt í því.

Myndin er fengin af forsíðu Fréttablaðsins. Pjetur tók.

This entry was posted in blogg and tagged , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>