Hungur- og þorstaverkfall Ghasems

Í hádeginu í gær heimsótti ég Omid, flóttamann á Íslandi. Hann bauð mér te og við ætluðum að spjalla, en talið hans barst ítrekað að strák í Vesturbænum sem hafði hvorki borðað né drukkið í tvo daga. „Hann svarar ekki lengur í símann,“ sagði Omid áhyggjufullur. „Ég hringdi í neyðarnúmer félagsþjónustunnar, en enginn svaraði. Svo fór ég þangað og barði á borð og þau sögðust ætla að líta á þetta.“ Eftir talsvert þref var ákveðið að senda lækni á staðinn. Seint um kvöld fór ég í heimsókn.

Ghasem virtist sofandi þegar ég gekk inn. Tveir aðrir menn voru í herberginu, Örn og Omid. Þeir höfðu reynt að telja Ghasem á að drekka vatn. Omid talar persnesku og þýddi fyrir okkur Örn, og Ghasem svaraði þreytulegum rómi. Af og til gretti hann sig vegna sársauka í kviðnum, sem hann hafði þá haft í fjóra tíma.

Ghasem hefur verið á Íslandi í tvö ár. Hann hefur fengið eitt viðtal við yfirvöld. Þar var honum sagt að Svíþjóð hefði neitað honum um hæli og þessvegna þyrftu íslensk yfirvöld ekki að hlusta á söguna hans. Hann áfrýjaði til innanríkisráðuneytisins fyrir einu og hálfu ári. „Þau gefa sér átján mánuði til að hugsa um málið. Þau hafa ekki hugsað um það ennþá,“ segir Omid.

Flestir flóttamenn heims koma frá Afganistan. Þar hefur verið samfleytt stríð í þrettán ár, en vesturlönd hafa háð stríð þar með hléum í eina og hálfa öld. Landið er eitt það spilltasta og fátækasta í heimi. Ghasem flúði þaðan með fjölskyldu sinni þegar hann var sextán ára. Þau fóru til Tyrklands, þar sem hann varð viðskila við fjölskylduna. „Ég veit ekki hvar þau eru,“ segir hann. Hann er tuttugu ára gamall. Síðan hann yfirgaf Afganistan hefur hann misst trúna. „Ef það kvisast út á ég hrottalegan dauða vísan,“ segir hann. „Ég er að binda endi á málið mitt, hvernig sem þetta fer.“

Okkur þótti undarlegt, fyrst hann hafði farið í hungurverkfall, að hann lét engan vita.

„Ég þekki engan,“ svaraði hann.

Ghasem talar bara persnesku, og hælisleitendur á Íslandi fá aðeins eins mánaðar íslenskukennslu – þó ekki frá persneskumælandi kennurum. Þeir fáu sem hann kynntist hér á landi – persneskumælandi flóttamenn – hafa verið reknir frá landinu einn af öðrum, sá síðasti fyrir tveimur mánuðum. Ghasem sér fram á sömu örlög ef hann hættir í hungurverkfallinu. „Ég verð þá sendur til Afganistan eins og vinir mínir. Sennilega mun ég tapa lífinu þar. Það breytir engu hvort ég svelt hér eða fer þangað.“

Ghasem hefur enga trú á að yfirvöld muni að óbreyttu veita sér hæli. Þau hafi haft tvö ár til að hlusta á sig. „Ef þau vildu leyfa mér að vera væru þau búin að segja já.“ Fyrir nokkrum mánuðum kom svo í ljós að lögfræðingurinn hans vissi ekki af neituninni í Svíþjóð – grundvallaratriði málsmeðferðarinnar. Ghasem sótti um að fá honum skipt út en veit ekki hvort orðið hafi verið við því, eða hvort hann sé yfirleitt með lögfræðing.

Við spurðum hann hvort hann hefði eitthvað á móti því að fara á sjúkrahús. Hann lét sér fátt um finnast. Neyðarlínan sendi sjúkrabíl og við tíndum saman dótið hans, meðal annars hælisleitendakort, eins konar skammtímaskilríki. Omid flissaði þegar hann tók það upp. „Einu sinni týndi ég útrunnu svona korti. Útlendingastofnun lét mig þá fá nýtt kort sem var líka útrunnið.“ Þessi málaflokkur er einsog eitthvað súrrealískt leikverk. Eða martröð.

Í morgun kom Ghasem af sjúkrahúsi. Hann hefur enn ekkert borðað. Innanríkisráðuneytið fer núna með málið, en vill ekki heyra söguna hans. Krafa Ghasems er að ákvörðun verði ekki tekin án þess að efnisleg meðferð – raunveruleg málsmeðferð, með viðtölum og gagnaöflun – eigi sér stað.

Tölvupóstfang innanríkisráðherra er innanrikisradherra@irr.is
Tölvupóstfang skrifstofustjóra réttarfars og almannaöryggis í ráðuneytinu er bryndis.helgadottir@irr.is
Tölvupóstfang Útlendingastofnunar er utl@utl.is

Leiðrétting: Ghasem og Omid töluðu að sjálfsögðu persnesku, ekki arabísku. Áður sagði að maður hefði svipt sig lífi í íbúð Ghasems, en um sjálfsvígstilraun var að ræða.