Flóttamenn og nasistar

Þetta er sagan af flóttamönnum í Evrópu, því þegar íslenska ríkið tók þátt í helförinni, og hvernig nasistar og njósnarar sáu um Útlendingaeftirlitið í hálfa öld.

Sagan hefst í kreppunni miklu. Atvinnuleysi var þá mikið hér á landi, svo fjölmörg stéttarfélög mæltust til brottvísunar útlendinga héðan og höftum á aðflutning þeirra. Styggð gegn útlendingum birtist sérstaklega í garð gyðinga. Þeir voru úthrópaðir sem hætta gegn íslenska kynstofninum og ýjað að skattsvikum þeirra. Hatur og níðsla á gyðingum skaut líka rótum í hæstu embættum landsins. Þó gyðingar væru varla nokkurs staðar færri en hér var mörgum þeirra vísað úr landi. Nánast engum var hleypt inn, og flestum sem náðu inn var fljótlega vísað burt aftur. Meira að segja sárbænir úr þrælkunarbúðum hreyfðu ekki við ráðamönnum.1

Útlendingaeftirlitið var stofnað á þessum tíma sem deild undir lögreglustjóranum í Reykjavík. Það átti að hafa “strangt eftirlit með högum og framferði þeirra útlendinga, sem hér [dvöldu]”.2 Einn fyrsti lögreglustjórinn eftir stofnun þess var Agnar Kofoed-Hansen. Hermann Jónasson, forsætisráðherra, hafði sumarið 1938 sent Agnar til Þriðja ríkisins til að nema aðferðir þýsku lögreglunnar af SS-foringjum. Agnar varð lögreglustjóri veturinn eftir, 24 ára gamall. Þar notaði hann útlendingaeftirlitið í tíu ár sem skálkaskjól fyrir leyniþjónustu. Eftir stríð gaf Bjarni Benediktsson þessari njósnadeild lögreglunnar sína eigin hæð á lögreglustöðinni. Auk þess skipaði Bjarni fyrrum flokksmann Þjóðernishreyfingarinnar, Sigurjón Sigurðsson, sem arftaka Agnars. Sigurjón gegndi því starfi í fjörutíu ár. Þannig voru nasistalærlingur og fyrrum nasisti yfirmenn útlendingaeftirlitsins í hálfa öld eftir stofnun þess.

Hermann Jónasson

Hermann Jónasson

Veturinn 1938 barst dómsmálaráðuneytinu beiðni frá Austurríki. Sextugur maður var þar í þrælkunarbúðum, og hafði fengið leyfi til að yfirgefa þær ef hann fengi landvist annarsstaðar. Hann ætlaði til Bandaríkjanna, en þyrfti þá að stoppa hér á landi í tvo mánuði. En tveir mánuðir voru of mikið. Hermann Jónasson synjaði honum um landvistarleyfi, þrátt fyrir vitneskju um aðstæður mannsins.1 Þessi ákvörðun hans var að mestu leyti byggð á geðþótta, enda hafði hann fullt vald til að leyfa hverjum sem honum sýndist dvöl hér – sem hann og gerði ef um nasista var að ræða.3

Sama vetur bað Friðarvinafélagið, ásamt Katrínu Thoroddsen, um landvistarleyfi fyrir nokkur gyðingabörn. Öllum hafði verið lofað heimili hér á landi sem myndu annast þau. Hermann dró fæturna í þrjá mánuði, og gaf svo skýringarlausa neitun. Katrín brást við með grein í Þjóðviljann undir titlinum “Mannúð bönnuð á Íslandi”. Flokksblaði Hermanns þótti þetta “einelti” gegn honum ólíðandi. Auðvitað hefðu gyðingar “verið miklu harðræði beittir”, en við þyrftum að passa að aðstoð við þá “verði ekki á kostnað þeirra einstaklinga hjá okkur, sem eru ekki síður þurfandi fyrir aðstoð.” Hefðu Íslendingar einhverja þörf til að hjálpa gætu þeir fengið næga útrás fyrir henni á öðrum Íslendingum. Morgunblaðið tók í sama streng.

Katrín Thoroddsen

Katrín Thoroddsen

Frávísanir gyðinga frá Íslandi voru kerfisbundnar og miskunnarlausar. Hálft annað hundrað gyðinga, ásamt fjölskyldum þeirra, fengu ekki leyfi íslenskra stjórnvalda til að flýja hingað. Þessir “hælisleitendur” hafa líklega margir hverjir látið lífið í útrýmingarbúðum nasista. Ísland var þannig rétt fyrir stríð eitt gyðingahreinasta land Evrópu.4

Enn í dag flýr fólk stríð, meðal annars stríð sem Íslendingar lögðu stuðning sinn við. Flóttamenn frá Írak í miðausturlöndum voru tæplega tvær milljónir árið 2008, og árin 2006-7 streymdu tvöþúsund þeirra á dag í Sýrland. Evrópa hafði þá tekið við færri en tvöþúsund íröskum flóttamönnum frá upphafi stríðsins.5 Þýskaland, best stæða ríki álfunnar, hafði ekki tekið við einum einasta. Svipaða sögu er að segja um aðra flóttamenn. Svo virðist sem við, ríkasta fólk heims, viljum fá olíu, ódýr föt og raftæki frá fátækum löndum, en ekki flóttamenn. Í því skiptir engu þótt við heyjum þar stríð endrum eins til að viðhalda þessu ástandi.

Mennirnir sem lögðu nafn Íslands við innrásina í Írak. Hér er Halldór nýbúinn að skipa Davíð seðlabankastjóra.

Til að halda flóttamönnunum utan Evrópu eru landamæri álfunnar varin. Göt eru stungin á gúmmíbáta þeirra á höfum úti, girðingar reistar og fólk sem nær yfir þær er keyrt tilbaka aftur.6 Þetta eru auðvitað brot á alþjóðalögum, en leitun er að ráðamanni sem ekki er sama. Í hverju skrefi þessarar mjög svo verklegu hælisumsóknar eiga flóttamenn á hættu að vera barðir, fangelsaðir og svívirtir.7 Réttindi þeirra eru brotin viðstöðulaust eins og kemur fram í skýrslu eftir skýrslu frá Amnesty International, flóttamannahjálp Sameinuðu Þjóðanna, Human Rights Watch, Rauða krossinum og fleirum.

Hlýlegar móttökur sýrlenskra flóttamanna í Grikklandi

Landamæravarnir Evrópu heyra undir stofnunina Frontex. Meðal verkefna Frontex árið 2013 var að senda flugvél í ferðalag um Evrópu til að tína saman 160 Albani, sem sótt höfðu um hæli hér og þar í Evrópu, og fljúga með þá til Albaníu. Fólkið sem sótt var fyrst mátti gera sér að góðu að sitja í flugvélinni meðan hún sótti fjölskyldur víðsvegar um álfuna. Helstu verkefni stofnunarinnar eru þó gæsla á Miðjarðarhafi og við syðri landamæri Evrópu. Hópur frjálsra félagasamtaka sagði á þingi flóttamannahjálpar Sameinuðu Þjóðanna árið 2008 að Frontex væri aðeins tilfallandi liður í herferð til að hindra flóttamenn í að sækja vernd samkvæmt flóttamannasamningi Sameinuðu Þjóðanna.

Ísland ljær Frontex stuðning með því að senda skip og flugvél Landhelgisgæslunnar suður í höf. Þegar haukfrán augu Íslendinganna hafa fundið smábáta, drekkhlaðna af flóttafólki, er flóttamönnunum skutlað í fangabúðir sem hafa margsinnis verið harðlega gagnrýndar af öllum viðkomandi mannréttindasamtökum. Þessa “björgun” flóttafólksins kallar Landhelgisgæslan “mannúðarstarf”. Fyrst og fremst er þó litið á mannúðarstarfið sem leið til að græða peninga: “Þessi verkefni eru okkur nauðsynleg og forsenda þess að viðhalda mannauð og tækjum Landhelgisgæslunnar og starfsemi okkar í heild sinni.”

Úr Frontex-flugi Landhelgisgæslunnar

Landamæragæslan er þó bara fyrsti liður í útlendingavörnum Evrópu. Ýmisskonar snilldarráð hafa runnið undan rifjum gæslumanna álfunnar, til dæmis gríska “hvítblaðið”. Þegar flóttamaður kemur til Grikklands án tilskildra skilríkja er honum fyrst hent í gæsluvarðhald, en þegar honum er sleppt fær hann þetta blað. Þar stendur að innan mánaðar þurfi hann að hafa yfirgefið landið. Það getur hann ekki án tilskildra skilríkja. Þegar hann reynir er hann aftur settur í gæsluvarðhald, og svo framvegis. Yfirmaður flóttamannahjálpar grísku kirkjunnar kallar hvítblaðið “þversögn”.8 Annað bragð var að álíta brottför úr landi sem yfirlýsingu um að hætt hefði verið við hælisumsókn. Þegar hælisleitandinn var svo endursendur til Grikklands samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni átti hann sér enga von.9 Það þótti þó of langt gengið, enda vilja hin Evrópulöndin helst að Grikkland haldi vandamálinu hjá sér.

Úr flóttamannabúðunum í Samos

Þessi flóttamannafælni yfirvalda á sér sömu ástæður og áður. Evrópubúar vilja ekki samkeppni um störf, vilja ekki aðlagast erlendum háttum, vilja ekki deila, vilja ekki fátæklinga og, það verður að segjast, vilja ekki vera innanum svertingja og araba. Margir vilja auðvitað hjálpa þessu fólki, en þá helst með því að senda þeim peninga í pósti. Allt nema hleypa þeim hingað.

Fáir flóttamenn vilja koma til Íslands. Flestir sem gómaðir eru hér eru á leið til Ameríku, en hafa fölsuð skilríki og eru handteknir við komu. Slík handtaka er enn eitt brotið á alþjóðlegum samþykktum, enda eru fölsuð skilríki oft eina von flóttamanna til að flýja lönd sín. Síðan eru þeir reglulega endursendir héðan til þess Evrópulands þar sem þeir komu fyrst á. Þetta er heimilað samkvæmt Dyflinnarreglugerðinni, en ekki nauðsynlegt. Mannréttindasamtök hafa þrautbeðið yfirvöld í Evrópu að leyfa flóttamönnum vera hjá sér, sem reglugerðin tekur sérstaklega fram að megi, enda aðstæður þeirra í komulöndunum oftast hörmulegar.

Flóttamenn í fangabúðunum í Kórintu

Innanríkisráðuneytið brást við aðfinnslum um endursendingar árið 2009 með lygum, rökleysu og vitfirrtri bjartsýni í skýrslu “um aðstæður hælisleitenda í Grikklandi”. Þar var því haldið fram að endursendingarnar væru nauðsynlegar fyrir “virkni þess kerfis sem samstarfið er byggt á.” Þetta getur bara talist satt ef “virknin” felst í að halda flóttamönnum við jaðar Evrópu og hindra aðgang þeirra að hæli. Eftir sykurhúðaða lýsingu á meferð hælisleitenda í grískum búðum og ákafa vísun í loforð yfirvalda þar um betrumbætur er talið upp hvernig nágrannaþjóðir okkar senda enn hælisleitendur til Grikklands, og ákveðið að gera það sama hér.

Hin fyllilega fyrirsjáanlega niðurstaða, að aðstæður í Grikklandi yrðu áfram óboðlegar lögum og siðferði, var þar með hundsuð. Í janúar 2011 dæmdi svo mannréttindadómstóll Evrópu að endursendingar flóttamanna þangað væru mannréttindabrot, bæði af hálfu landsins sem sendir hælisleitandann sem og Grikklands, vegna aðstæðna þar. Svipað ástand er nú að koma upp í Búlgaríu og Ítalíu.

Komist flóttamaður til Íslands tekur við skriffinnskumartröð, áreiti lögreglu og handahófskenndar brottvísanir, oft ólöglegar. Þó mál flóttamanna séu enn fyrir dómstólum eiga þeir samt á hættu að vera vísað úr landi, eins og varð frægt í dæmi Paul Ramses. Hann hafði kært brottvísun sína, og áfrýjunin var enn í meðferð, þegar lögreglan rændi honum af heimili fjölskyldu sinnar um hánótt og keyrði hann út á flugvöll. Tveir menn hlupu á flugbrautina til að stoppa flugið og vöktu mikla athygli á málinu. Þökk sé ítrekuðum mótmælum var hann loks sóttur til Íslands aftur. Hann vann áfrýjunina, en þótt augljós brot á málsmeðferð hefðu átt sér stað voru aðeins flugvallarhlaupararnir ákærðir og dæmdir.

“Sérsveitarmenn brutu upp dyr á herbergjum heimilisins og handtóku heimilismenn, alls fimmtán manns. Mennirnir fengu ekki að klæða sig áður en lögregla færði þá í varðhald á lögreglustöðinni Hverfisgötu, né heldur að taka með sér föt til skiptanna. Sumir þeirra voru því á nærbuxum einum fata þegar þeim var sleppt úr varðhaldi sex klukkustundum síðar.”

Lítið hefur breyst á áttatíu árum. Afstaða íslenska ríkisins gegn útlendingum á sér djúpar rætur, sem ná langt útfyrir hin klisjukenndu “lönd sem við berum okkur saman við”. Ríkari Evrópulöndin vinna saman að því að halda fátæklingunum fyrir sunnan. Litlu skiptir hvort þeir séu að flýja okkar eigin stríðsrekstur, eða hvort þeir komi frá löndum sem fyrir nokkrum áratugum voru evrópskar nýlendur. Við viljum þá ekki.

Þessi stefna ber árangur, sem sést ekki bara á tölfræðinni. Í fjölmörgum viðtölum við flóttamenn má lesa hvernig þeir sjá eftir að hafa komið hingað. Fyrrum þrælar, sem ekki vissu hvað “vegabréf” og “landamæri” eru, hafa nú fengið að kynnast því svo um munar. Við höfum kennt tugþúsundum Asíu- og Afríkubúa rækilega hvað evrópsk velferð og jafnaðarstefna þýðir. Hún þýðir jöfnuð og velferð fyrir ríkasta fólk í heimi. Þessi meðferð er þakklæti okkar fyrir þær auðlindir og framleiðsluvörur sem við neytum daglega úr fátækari heimsálfum. Þeirra vandamál eru ekki okkar. Okkar vandamál eru þau.

1Útlendingar og íslenskt samfélag 1900-1940”, MA ritgerð Snorra Guðjóns Bergssonar, bls. 137-8. (ÞS. DR. db. 14/316.)
2Stjórnartíðindi 1936 A, 146-149. Tilvitnun úr “Útlendingar og íslenskt samfélag 1900-1940”, bls. 99.
3“Útlendingar og íslenskt samfélag 1900-1940”, bls. 110.
4“Útlendingar og íslenskt samfélag 1900-1940”, bls. 138.
5Sjá bls. 27.
6Sjá bls. 3.
7Sjá bls. 4 og fyrstu kafla skýrslunnar.
8Sjá bls. 33-4.
9Sjá bls. 34. Sjá líka blaðsíðu 102, undirkaflann ““Tricks” to Knock Applicants Out of the Asylum Procedure”.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>