Félagsskráning

Undanfarna daga hef ég ásamt fríðu föruneyti unnið að því að stofna áhugamannafélag. Eftir þónokkurt pappírs- og pælingafargan tók ég síðustu undirskriftasmölun meðal stofnfélaga í morgun á Háskólatorgi. Reglur félagsins voru skrásettar í gær í miklum jafnaðarham – allir meðlimir félagsins yrðu að stjórnarmeðlimum á aðalfundi og einu formlegu skyldur formanns umfram aðra meðlimi væru boðun slíks fundar.

Með þessar háleitu hugsjónir gekk ég inn til embættis ríkisskattstjóra hálftíma fyrir lokun og í deild D – fyrirtækjaskrá með númerið D571 sem afgreiðsluvélin hrækti í mig þegar ég sló hana. Svo vongóður var ég um velgengni að ég vippaði upp fartölvunni og ætlaði að millifæra á viðeigandi reikninga 5000 krónurnar sem þarf til skráningar félags. Það var ekki fyrr en ég hafði kveikt á tölvunni og opnað vafrann að ég fattaði að þráðlaust net er ekki innbyggt í gervallt íslenska loftslagið. En það voru minnstu vandræði miðað við það sem var í uppsiglingu.

“Get ég aðstoðað?”
“Ég er að spá í að stofna félag…”
“Já, þú tekur þér eyðublað hérna…”
“Ég er komin með þau, ég var að spá hvort giltu einhverjar reglur um fjölda stjórnarmanna?”
“Minnst þrír.”
“Engin hámörk?”
“Neeei, bara minnst þrír, held ég…”
“Ókei. Allir meðlimir verða stjórnarmeðlimir.”
“Já, það þarf bara að skila inn þessu eyðublaði með nöfnum og kennitölum…”

Hún stóð upp og gekk að rekka með myndarlegu úrvali af eyðublöðum sem litu öll eins út og rétti mér eitt þeirra.

“Verður maður að skila þeim á svona eyðublaði?”
“Jaa… hvað þarf marga?”
“Hvað ef við ætlum að skrá hundrað nýja stjórnarmenn?”

Hún stirðnaði í smá stund og ég heyrði eitthvað detta í heilabúinu hennar.

“Þa… ööö… það er ekkert hægt.”
“Nú?”
“Bara… það er ekkert hægt.”
“Eru einhver lög gegn því? Er Excel skjalið ekki nógu stórt?”
“Af hverju viltu það?”
“Jafnræði.”

Hún hnykkti brýrnar og sneri sér að samstarfskonu sinni.

“Er hægt að skrá hundrað stjórnarmenn?”
“Veistu, í þau tuttugu ár sem ég hef unnið hérna hef ég aldrei heyrt þessa spurningu.”
“Geturðu kannski hringt í Sigríði?”

Sjálf hljóp hún burt, en kom að kulnuðu spori fáeinum mínútum síðar.

“Sko… ég var að tala við yfirmann fyrirtækjaskráningar, hann segir að það þurfi bara að taka skýrt fram hámark og lágmark í reglunum.”
“Má hámarkið vera sjö milljarðar?”
“Hvað… þú… hvernig ætliði… meirihluti stjórnar þarf að taka ákvarðanir um breytingar á…”
“Þá verður bara engu breytt.”

Ég ákvað að taka ekki fram að í reglum félagsins kom fram að einróma samþykki stjórnar þyrfti til að samþykkja reglubreytingar. Að loknu talsverðu þrefi um skilvirkan félagsrekstur og utankjörstaðaratkvæði og lágmarksmætingu á aðalfundi gaf hún mér nafn og símanúmer og sagðist ekki geta hjálpað frekar.

Þrátt fyrir að vera ótraustvekjandi byrjun gæti þetta reynst illa innpökkuð blessun. Þessa dagana er nefnilega ekki bara söfnuðurinn í smíði, heldur líka stjórnmálahreyfing. Hugmyndin er að kjörnir flokksmenn kjósi á þingi eftir rafrænni kennitölubundinni netkosningu á heimasíðu flokksins. Hver sem er fær aðgang að síðunni gegn framvísun skilríkja, og sjái maður sér ekki fært að kjósa getur maður tilnefnt hóp fólks sem sín skoðanasystkin. Manns atkvæði fellur þá eftir meirihluta þeirra atkvæða. Afturkallanlegur, persónulegur, sjálfvalinn flokkur. Ef svo fer að söfnuðurinn fær sínu framgengt með stjórnarhætti mætti hafa rafræn utankjörfundaratkvæði um tillögur til reglubreytinga og um fjárreiður hans með sama hætti.

Sem þýðir að ég þarf að vinda mér í að forrita, að minnsta kosti þar til á morgun, þegar ég hringi í Sigríði. Kannski ég spyrji hana líka um þá hugmynd að láta keppni í sjómann ráða úrslitum þegar atkvæði við formannskjör falla jafnt.

This entry was posted in blogg on by . */?>

Post navigation

Athugasemdir

*/ ?>