Ekki vera steinn í múrnum

7. 11. 2019, 14:09

Það fyrsta sem þú tekur eftir í Jerúsalem eru túristarnir. Pílagrímar nútímans, léttklæddir með myndavélar, að heimsækja höllina þar sem Heródes fyrirskipaði kynslóðarmorðið og Getsemanegarðinn þar sem Júdas kyssti Jesú, að labba með kyrjandi munkum krossberaslóðina. Kaupa boli sem stendur á „Guns n Moses“ og „America don’t worry, Israel is behind you“.

Í gömlu borginni, innan aldagamalla múra, eru fjögur hverfi – múslimar, gyðingar, kristnir og Armenar skiptast þar á að halda helgidagana sína á föstudegi, laugardegi og sunnudegi. Það má alltaf finna opna verslun í einu hverfinu þegar hitt er að heiðra sinn guð.

Horft austurfrá höll Heródesar yfir al-Aqsa á Ólífufjallið

Einn daginn er hliðum í borgina lokað. Palestínskur unglingur tók upp hníf nálægt ísraelskum hermönnum sem eru víða í borginni, vopnaðir hríðskotabyssum. Enginn slasaðist nema terroristinn segja fjölmiðlar, með því orðfæri sem veröldinni er orðið tamt að nota um óhlýðna Araba. Tveir hermenn á hestbaki stilla upp verði við Heródesarhliðið norðanmegin á múrunum. Aldagamlir múrar, þvaga af forvitnu fólki, verðir á hestbaki, vélbyssur.

Jerúsalem hefur stækkað langt útfyrir gömlu múrana og er svo gott sem samliggjandi borginni Betlehem, skammt fyrir sunnan. Þar er annar og nýrri múr, átta metrar á hæð, sem hlykkjast gegnum bæinn, til að halda Palestínumönnum frá Ísrael. Aðskilnaðarmúrinn er grár Ísraelsmegin, en málaður alls kyns listaverkum og skilaboðum Palestínumegin. „Ekki vera steinn í þessum múr.“ Annars staðar: „Hefndin fyrir þetta verður hlátur barna okkar.“

Aðskilnaðarmúrinn var reistur uppúr aldamótum þegar Palestínumenn gerðu uppreisn gegn hernámi Ísraels. Hann var ekki reistur á vopnahléslínunni milli landanna, heldur langt inni á palestínsku landi, „til að innlima eins mikið land og mögulegt er af Vesturbakkanum“, með orðum ísraelsku friðarsamtakanna Peace Now. Á meðan augu heimsins eru á linnulausum hörmungum og hernaðarofstæki í Gaza, lítilli landræmu sem Ísrael kærir sig lítið um, hefur landrán á Vesturbakkanum haldið áfram linnulaust. Athyglinni er haldið á Gaza svo ríkið geti haft frjálsar hendur við landtöku annars staðar, segir starfsmaður heildarsamtaka palestínsks verkafólks. Í nýafstöðum þingkosningum í Ísrael var eitt kosningaloforðið að innlima stór svæði af landi Palestínumanna á Vesturbakkanum, gera þau hluta af Ísrael.

Fremst er Jeríkó, árþúsundagömul vin í eyðimörkinni. Jórdandalurinn blasir við og fjallagarðar Jórdaníu aftast. Forsætisráðherra Ísrael lofaði í kosningum að kasta eign Ísrael yfir dalinn.

Ég spyr ungling sem selur listaverk í sýningarrými hjá múrnum hvort hún muni eftir því þegar hann var reistur. „Já, ég var krakki þegar hann kom. Hann var byggður í áföngum, svo við fengum tíma til að aðlagast.“ Múrinn er beint fyrir utan húsið, settur upp til að halda henni úti.

Eitt ísraelska hverfið á fætur öðru rís innan múrsins á Vesturbakkanum, vígvædd lúxushverfi með snyrtilegum íbúðarhúsum, smíðuð af fólki sem segir allt land Palestínu tilheyra Ísrael með trúarlegum rétti. Ísrael hefur tekið stjórn á vatnsbólum og gefur minnihluta fólksins sem býr í landránsbyggðunum meirihluta vatnsins gegnum vatnsveitu. Palestínumenn fá sitt vatn, sótt undan þeirra eigin landi, skammtað, og geyma í kútum á þökunum sínum. Þeir líða niðurskurð á fjármagni, niðurskurð á landi, niðurskurð á vatni og á frelsi.

Vikulegar mótmælagöngur víða í Palestínu gegn þessum byggðum eru hraktar aftur af hermönnum með táragasi og leyniskyttum. Ben Ehrenreich, blaðamaður sem dvaldi á Vesturbakkanum, segir leyniskytturnar miða á hné mótmælenda til að hámarka örkumlun. Stundum leika hermennirnir sér að því að skjóta vatnskútana á palestínskum þökum.

Landránsbyggð á hæð utanvið Betlehem. Palestínsku byggðirnar nær þekkjast á vatnskútunum á þökunum, en ísralesku byggðirnar hafa vatnsveitu.

Ísrael er lítið land og Palestína jafnvel smærri. Vesturbakkinn er á stærð við Austfirði. Aðskilnaðarmúrinn, sem lokar inni þrjár milljónir sálna, kræklast og hlykkist um hann sjö hundruð kílómetra leið. Aðskilnaður þjóðanna og uppihald hernámsins er ekki bara kostnaðarliður ísraelsku siðmenningarinnar. Palestínsku verkafólki er skammtað inn til Ísrael, og jafnvel í landtökubyggðirnar, þar sem arabískt vinnuafl telst ódýrt og útskiptanlegt. Atvinnuleyfi eru bundin atvinnurekanda og uppsagnarvarnir eru engar. Sala á atvinnuleyfum er arðbær mafía. Það er bissniss í aðskilnaði.

Þau sem eru svo heppin að fá atvinnuleyfi þurfa engu að síður að fara gegnum klukkutímalangar biðraðir og öryggispróf sérhvern morgun til að komast í vinnuna. Þau vakna um miðja nótt og leggja af stað, standa í biðröð klukkutímum saman, vinna langan dag, líða launaþjófnað og misrétti og koma svo heim seint um kvöld. Þau sem slasast eru send beint til baka. Vinnuvernd er engin. Ísraelsk stéttarfélög hjálpa ekki Palestínumönnum og palestínsk stéttarfélög hafa engin völd handan múrsins.

Sendinefnd Alþýðusambandsins, sem heimsótti svæðið um mánaðamótin október-nóvember, spurðist fyrir hvaða leiðir væru færar til að berjast fyrir auknu frelsi Palestínumanna. Allir viðmælendur sögðu að berjast þyrfti gegn hernáminu, og besta aðferðin sem vísað var til er alþjóðlega sniðgönguherferðin BDS.

Herferðin miðar að því að þrýsta friðsamlega á viðskiptaöfl í Ísrael og svipta ríki þeirra alþjóðlegri velvild og viðurkenningu, þar til ofríki og hernámi lýkur. Fyrirmyndin er sniðganga Suður-Afríku á tímum apartheid, þar sem yfirvöld gáfu sig loks og leyfðu sameiningu landsins undir lýðræðislegri stjórn allra – ekki bara ríka minnihlutans. Uppskipting Palestínu og Ísrael í tvö ríki var lengi talin vænlegasta lausnin fyrir botni Miðjarðarhafs, en stöðugur sundurskorningur palestínsks lands af hálfu Ísrael hefur gert eins ríkis lausn á borð við þá í Suður-Afríku sífellt ákjósanlegri.

al-Aqsa, musteri steinsins helga, í Jerúsalem.

Túristarnir sem ferðast um landið helga koma margir hverjir frá vesturlöndum, kristilegar ferðir um heimaslóðir testamentsins. Með þeim kemur aðdáun á framverði siðmenningar gegn barbarisma, hinu hreinlega og ríka yfirvaldi sem tekur land af heimafólkinu og ver sig með dýrustu og bestu vopnum sem bjóðast. Ísrael er smátt land, eins og smækkuð mynd af heiminum öllum, þar sem ríkur minnihluti ræður lögum og lofum um auðlindir, þar sem viðskiptaveldi nýta sér fátæklingana handan girðinga og múra til að halda verði vinnuaflsins niðri. Til að halda umræðunni frá stéttskiptingu er trúarhiti og kynþáttaótti gagnleg afvegaleiðing.

Við spurðum forsvarsmenn stéttarfélaga í Palestínu hvort það væri ekki skaði í því fyrir Palestínumenn að ísraelska hagkerfið yrði sniðgengið? Það veitir jú mörgum þeirra atvinnu. Svarið var einfalt. Öll okkar vandamál má rekja til hernámsins, sögðu þau. Ef við viljum fá sjálfræði aftur, og geta staðið á eigin fótum, þá þarf að stoppa hernámið, þótt það verði erfitt.

Og enn lifir í fólki von og þrautseigla – enda ekki annað í boði. „Það er ljós við enda ganganna,“ sagði einn Palestínumaður okkur. „En við vitum ekki hvað göngin eru löng.“

Þessi grein birtist í næsta tölublaði Eflingarblaðsins.

This entry was posted in blogg on by . */?>

Valdbeiting af gáleysi

29. 4. 2019, 17:35

Í dag hefur “lögruglan” úr Salnum í Kópavogi tjáð sig um upphlaupið á laugardaginn, og eru þá allir helstu málsaðilar búnir að játa opinberlega á sig atburði þess dags: Maður tók sér lögregluvald án leyfis, með hvatningu bæjarstjóra Kópavogs, og beitti því gegn hælisleitanda.

Það er ekki á hverjum degi sem glæpsamlegur verknaður er jafn skilmerkilega útskýrður af fólkinu sem stóð á bakvið hann eins og hér. Ármann Kr. Ólafsson, sem reyndi að framfylgja fundarsköpum með lögregluvaldi, sagði eftirminnilega að “við ætlum ekki að hringja í lögregluna því þessir tveir herramenn hérna eru lögreglan.” Umræddir menn völsuðu upp að hælisleitendunum og ítrekuðu að hælisleitendurnir ættu að setjast og þegja. Svo sagði annar “lögreglumannanna” á ensku: “Ef ekki, þá tökum við ykkur út. Við tökum ykkur út. Við erum lögreglan. Þú getur talað við mig, ég er lögreglumaður.”

Ármann vissi að þetta væri ekki satt, enda sagði hann eftir fundinn að hann “hefði auðvitað átt að taka það fram að þeir væru fyrr­ver­andi lög­reglu­menn.”

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, dómsmálaráðherra, sem hefur neitað að svara hælisleitendunum þegar þeir reyna að tala við hana á venjulegan máta, benti á hið augljósa — að það mætti auðvitað ekki þykjast vera lögga. “Auð­vitað getur enginn tekið að sér slíkt vald.”

Lögruglan sjálf var Þorvaldur Sigmarsson, stjórnarmaður í Sjálfstæðisfélaginu í Kópavogi. Hann hefur nú stigið framfyrir skjöldu og útskýrt hvað gerðist. “Mér urðu á mistök þegar ég sagði þetta,” segir hann. “Þetta kom öfugt út úr mér. Ég leiðrétti þetta við þessa menn á eftir. Ég ætlaði að segja ‘I was a policeman’. Ég er enginn sérfræðingur í ensku.”

Þetta er auðvitað ótrúlegt, í orðsins fyllstu merkingu. En hann bætir um betur. Í tráss við það sem gerðist í alvörunni, og sem tekið var upp á myndband sem tugþúsundir hafa horft á á internetinu, segir Þorvaldur til viðbótar að hann “ætlaði ekki að fara að slást við hann eða henda honum út eða neitt þannig.” Með öðrum orðum, valdbeitingin var af gáleysi — rétt einsog það þegar hann sagði óvart að hann væri lögga. Svona hegðun kallast á góðri íslensku lygar og undanbrögð.

Það sem bannar venjulegu fólki að taka lögin í eigin hendur er ekki bara heilbrigð skynsemi, heldur líka 116. grein almennra hegningarlaga. Hún hljóðar svo:

Hver, sem tekur sér eitthvert opinbert vald, sem hann ekki hefur, skal sæta sektum eða fangelsi allt að 1 ári eða, ef miklar sakir eru, fangelsi allt að 2 árum.

Í ljósi þess að allir málsaðilar hafa í meginatriðum og sameiningu játað glæpinn situr bara eftir spurningin hvort um ræði “miklar sakir”. Þegar lögfræðingar reyna að svara henni er vert að athuga eitt. Eins og fjöldi fólks hefur bent á er ekki bara verið að beita lögreglu-fundarsköpum á hvern sem er, heldur á flóttamenn í hælisferli, sem hafa iðulega engan pening, eru upp á mjög illkvitna stofnun komnir, og þurfa að búa við það sérhverja nótt að geta fengið bank á hurðina frá sérsveitinni, sem brottvísar fjölda þeirra í hverri viku. Og í því samhengi eru eftirfarandi orð Þorvalds ekki-löggu forvitnileg:

Ármann hafði talað um að við værum lögreglumenn og því er beint til mín frá þessum aðila hvort ég væri lögreglumaður eða ekki og ég sagði honum það. Ég hefði ekki gert það við Íslending.

Sagði hælisleitandanum hvað? Lygi? Rugl? Og hefði ekki gert hvað við Íslending? Ruglað í honum á ensku? Logið að honum að hann sé lögga?

Það er nefnilega ekki sama hver segir ósatt um valdheimildir sínar eða við hvern. Hvað þá þegar bæjarstjóri Kópavogs, með dómsmálaráðherra sér við hlið, tekur þátt í lyginni.

This entry was posted in blogg on by . */?>

Flóttamenn í Evrópu og nasistar á Íslandi

9. 8. 2018, 14:09

Þetta er sagan af flóttamönnum í Evrópu, því þegar íslenska ríkið tók þátt í helförinni, og hvernig nasistar og njósnarar sáu um Útlendingaeftirlitið í hálfa öld.

Sagan hefst í kreppunni miklu. Atvinnuleysi var þá mikið hér á landi, svo fjölmörg stéttarfélög mæltust til brottvísunar útlendinga héðan og höftum á aðflutning þeirra.1 Styggð gegn útlendingum birtist sérstaklega í garð gyðinga. Þeir voru úthrópaðir sem hætta gegn íslenska kynstofninum2 og ýjað að skattsvikum þeirra.3 Hatur og níðsla á gyðingum skaut líka rótum í hæstu embættum landsins. Þó gyðingar væru varla nokkurs staðar færri en hér var mörgum þeirra vísað úr landi. Nánast engum var hleypt inn, og flestum sem náðu inn var fljótlega vísað burt aftur. Meira að segja sárbænir úr þrælkunarbúðum hreyfðu ekki við ráðamönnum.4

Hermann Jónasson

Hermann Jónasson, ábyrgðarmaður stefnunnar

Útlendingaeftirlitið var stofnað á þessum tíma sem deild undir lögreglustjóranum í Reykjavík. Það átti að hafa „strangt eftirlit með högum og framferði þeirra útlendinga, sem hér dvöldu”.5 Einn fyrsti lögreglustjórinn eftir stofnun þess var Agnar Kofoed-Hansen. Hermann Jónasson, forsætisráðherra, hafði sumarið 1938 sent Agnar til Þriðja ríkisins til að nema aðferðir þýsku lögreglunnar af SS-foringjum.6 Agnar varð lögreglustjóri veturinn eftir, 24 ára gamall. Þar notaði hann útlendingaeftirlitið í tíu ár sem skálkaskjól fyrir leyniþjónustu.7 Eftir stríð gaf Bjarni Benediktsson þessari njósnadeild lögreglunnar sína eigin hæð á lögreglustöðinni. Auk þess skipaði Bjarni fyrrum flokksmann Þjóðernishreyfingarinnar, Sigurjón Sigurðsson, sem arftaka Agnars.8 Sigurjón hafði gert garðinn frægan með skrifum í stúdentablað nasista fyrir stríð,9 en gekk ásamt mörgum nasistum í Sjálfstæðisflokk Bjarna Benediktssonar þegar stríðinu lauk. Sigurjón gegndi starfi lögreglustjóra í fjörutíu ár. Þannig voru nasistalærlingur og nasisti yfirmenn útlendingaeftirlitsins í hálfa öld eftir stofnun þess.

Skólablað Sigurjóns

Veturinn 1938 barst dómsmálaráðuneytinu beiðni frá Austurríki. Sextugur maður var þar í þrælkunarbúðum, og hafði fengið leyfi til að yfirgefa þær ef hann fengi landvist annarsstaðar. Hann ætlaði til Bandaríkjanna, en þyrfti þá að stoppa hér á landi í tvo mánuði. En tveir mánuðir voru of mikið. Hermann Jónasson synjaði honum um landvistarleyfi, þrátt fyrir vitneskju um aðstæður mannsins.10 Þessi ákvörðun hans var að mestu leyti byggð á geðþótta, enda hafði hann fullt vald til að leyfa hverjum sem honum sýndist dvöl hér – sem hann og gerði ef um nasista var að ræða.11

Sama vetur bað Friðarvinafélagið, ásamt Katrínu Thoroddsen, um landvistarleyfi fyrir nokkur gyðingabörn. Öllum hafði verið lofað heimili hér á landi sem myndu annast þau. Hermann dró lappirnar í þrjá mánuði, og gaf svo skýringarlausa neitun. Katrín brást við með grein í Þjóðviljann undir titlinum „Mannúð bönnuð á Íslandi”.12 Flokksblaði Hermanns þótti þetta „einelti” gegn honum ólíðandi.13 Auðvitað hefðu gyðingar „verið miklu harðræði beittir”, en við þyrftum að passa að aðstoð við þá „verði ekki á kostnað þeirra einstaklinga hjá okkur, sem eru ekki síður þurfandi fyrir aðstoð.” Hefðu Íslendingar einhverja þörf til að hjálpa gætu þeir fengið næga útrás fyrir henni á öðrum Íslendingum. Morgunblaðið tók í sama streng með fyrirsögninni: „Á að gera Ísland að gróðrarstíu fyrir flakkandi erlendan landshornalýð?”14

Katrín Thoroddsen

Katrín Thoroddsen, ein af „góða fólkinu“

Frávísanir gyðinga frá Íslandi voru kerfisbundnar og miskunnarlausar. Hálft annað hundrað gyðinga, ásamt fjölskyldum þeirra, fengu ekki leyfi íslenskra stjórnvalda til að flýja hingað. Þessir hælisleitendur hafa líklega margir hverjir látið lífið í útrýmingarbúðum nasista. Ísland var þannig rétt fyrir stríð eitt gyðingahreinasta land Evrópu.15

Enn í dag flýr fólk stríð, meðal annars stríð sem Íslendingar lögðu stuðning sinn við. Flóttamenn frá Írak voru tæplega tvær milljónir árið 2008, og árin 2006-7 streymdu tvöþúsund þeirra á dag í Sýrland. Evrópa hafði þá tekið við færri en tvöþúsund íröskum flóttamönnum frá upphafi stríðsins.16 Síðan byrjaði stríð í Sýrlandi og hundruð þúsunda flýðu til Tyrklands. Neyð þeirra vakti ekki athygli Evrópubúa fyrr en þeir reyndu að koma hingað – þá gaf Evrópusambandið Tyrklandi peninga til að vígvæða landamærin sín við Sýrland og smíða múr.17 Turkey is going to build a wall, and the EU will pay for it, eins og einhverjir myndu orða það. Við, ríkasta fólk heims, virðumst vilja fá olíu, ódýr föt og raftæki frá suðurlöndum, en ekki flóttamenn. Í því skiptir engu þótt við heyjum þar stríð endrum eins til að viðhalda þessu ástandi.

Mennirnir sem lögðu nafn Íslands við innrásina í Írak. Hér er Halldór nýbúinn að skipa Davíð seðlabankastjóra.

Til að halda flóttamönnunum utan Evrópu eru landamæri álfunnar varin, og landamæragæslan nær langt inn í annarra manna lönd og heimsálfur. Einræðisherrum og morðsveitum í löndum á borð við Súdan og Líbýu er borgað til að stoppa fólk sem reynir að komast yfir landamæri – landamæri sem evrópsk heimsveldi teiknuðu fyrir ári og öld.18 Í Evrópu eru nefnilega til mannréttindi, en ekki fyrir sunnan, og þess vegna hentar betur að láta afgreiða flóttamennina áður en þeir komast í lög og reglu. Í hverju skrefi þessarar mjög svo verklegu hælisumsóknar eiga flóttamenn á hættu að vera barðir, fangelsaðir, seldir í þrælkun eða hórdóm eða að vera nauðgað. Réttindi þeirra eru brotin viðstöðulaust eins og kemur fram í skýrslu eftir skýrslu frá öllum heimsins mannréttindasamtökum.19

Lögreglumenn passa upp á flóttamenn á grískri eyju vorið 2016

Landamæravarnir innan Evrópu eru ekki á könnu afrískra morðsveita, heldur heyra þær undir stofnunina Frontex. Helstu verkefni stofnunarinnar eru gæsla á Miðjarðarhafi og við syðri landamæri Evrópu og greining fólksstrauma til að geta spáð hvar varnir okkar gegn útlendingum eru veikastar.

Ísland ljær Frontex stuðning með því að senda skip og flugvél Landhelgisgæslunnar suður í höf. Þegar haukfrán augu Íslendinganna hafa fundið smábáta, drekkhlaðna af flóttafólki, er flóttamönnunum skutlað í fangabúðir sem hafa margsinnis verið harðlega gagnrýndar af öllum viðkomandi mannréttindasamtökum. Þessa „björgun” flóttafólksins kallar Landhelgisgæslan „mannúðarstarf”. Fyrst og fremst er þó litið á mannúðarstarfið sem leið til að græða peninga: „Þessi verkefni eru okkur nauðsynleg og forsenda þess að viðhalda mannauð og tækjum Landhelgisgæslunnar og starfsemi okkar í heild sinni.”20

Úr Frontex-flugi Landhelgisgæslunnar

„Björgun“ fólksins í evrópskar fangabúðir er hinsvegar það sem telst til mannúðar árið 2018, árið þar sem evrópskum höfnum var lokað fyrir björgunarskipum. Stjórnmálastéttin, sem ekki vill horfast í augu við langvarandi efnahagskrísu síðasta áratugar, beinir augunum ekki að eigin mistökum, heldur að útlendingunum. Við þurfum að halda þeim úti, segja þau, svo rasistarnir komist ekki til valda. Við verjumst rasistum með því að taka upp þjóðhreinsunarstefnu, við höldum aftur af fasisma í Evrópu með því að efla hann í Tyrklandi og Afríku.

Þessi flóttamannafælni yfirvalda á sér sömu ástæður og áður. Langvarandi efnahagskreppa kyndir undir ótta við innflytjendur, en stjórnmálamenn þora ekki að skora peningaöflin á hólm. Það er auðveldara (og gróðavænlegra) að skamma innflytjendur en iðnaðinn, auðveldara að setja lög á búrkur en banka.

Fáir flóttamenn vilja koma til Íslands. Flestir sem koma hingað hafa reynt að fá vernd í síharðnandi hælisferlum annarra evrópskra landa, og fengið höfnun. Í stað þess að vera síðasta vígi mannúðar hefur Ísland tekið upp harða endursendingarstefnu. Flóttamennirnir eru sendir í Evrópulöndin sem höfnuðu þeim, með vísun í Dyflinnarreglugerðina, og þaðan heim til sín. Dæmi um þessa meðferð er Gazabúinn Ramez, sem slapp úr einangrunarvistinni þar eftir margra ára þrautir og raunir. Honum var neitað um vist í Noregi og flýði til Íslands, sem sparkaði honum beint til baka einsog óskilaböggli. Innan nokkurra vikna hafði Noregur sent hann til Gaza aftur – rétt í tæka tíð fyrir hann að verða fyrir loftárásum Ísraela sumarið 2014.21 Ramez reyndi í þrjú ár að sleppa aftur og náði til Grikklands í fyrra. Þar er hann fastur núna, enda hafa ríkari Evrópulönd látið reisa girðingar utanum Grikkland svo enginn komist þaðan norður á bóginn.

Ramez í Aþenu í febrúar

Innanríkisráðuneytið brást við aðfinnslum um Dyflinnar-endursendingar árið 2009 með lygum, rökleysu og vitfirrtri bjartsýni í skýrslu „um aðstæður hælisleitenda í Grikklandi”.22 Þar var því haldið fram að endursendingarnar væru nauðsynlegar fyrir „virkni þess kerfis sem samstarfið er byggt á.” Þetta getur bara talist satt ef „virknin” felst í að halda flóttamönnum við jaðar Evrópu og hindra aðgang þeirra að hæli. Eftir sykurhúðaða lýsingu á meferð hælisleitenda í grískum búðum og ákafa vísun í loforð yfirvalda þar um betrumbætur er talið upp hvernig nágrannaþjóðir okkar senda enn hælisleitendur til Grikklands, og ákveðið að gera það sama hér.

Hin fyllilega fyrirsjáanlega niðurstaða, að aðstæður í Grikklandi yrðu áfram óboðlegar lögum og siðferði, var þar með hundsuð. Í janúar 2011 dæmdi svo mannréttindadómstóll Evrópu að endursendingar flóttamanna þangað væru mannréttindabrot, bæði af hálfu landsins sem sendir hælisleitandann sem og Grikklands, vegna aðstæðna þar. Úps.

Komist flóttamaður til Íslands tekur við skriffinnskumartröð, áreiti lögreglu og handahófskenndar brottvísanir, oft ólöglegar. Þó mál flóttamanna séu enn í ferli eiga þeir samt á hættu að vera vísað úr landi, eins og varð frægt í dæmi Paul Ramses. Hann hafði kært brottvísun sína, og áfrýjunin var enn í meðferð, þegar lögreglan rændi honum af heimili fjölskyldu sinnar um hánótt og keyrði hann út á flugvöll. Tveir menn hlupu á flugbrautina til að stoppa flugið og vöktu mikla athygli á málinu. Þökk sé ítrekuðum mótmælum var hann loks sóttur til Íslands aftur. Hann vann áfrýjunina, en þótt augljós brot á málsmeðferð hefðu átt sér stað voru aðeins flugvallarhlaupararnir ákærðir og dæmdir.

Íbúð flóttamanna í Kópavogi eftir heimsókn lögreglunnar. „Sérsveitarmenn brutu upp dyr á herbergjum heimilisins og handtóku heimilismenn, alls fimmtán manns. Mennirnir fengu ekki að klæða sig áður en lögregla færði þá í varðhald á lögreglustöðinni Hverfisgötu, né heldur að taka með sér föt til skiptanna. Sumir þeirra voru því á nærbuxum einum fata þegar þeim var sleppt úr varðhaldi sex klukkustundum síðar.”

Lítið hefur breyst á áttatíu árum. Afstaða íslenska ríkisins gegn útlendingum á sér djúpar rætur, sem ná langt útfyrir hin klisjukenndu „lönd sem við berum okkur saman við”. Ríkari Evrópulöndin vinna saman að því að halda fátæklingunum fyrir sunnan. Litlu skiptir hvort þeir séu að flýja okkar eigin stríðsrekstur og loftslagshamfarir, eða hvort þeir komi frá löndum sem fyrir nokkrum áratugum voru evrópskar nýlendur. Við viljum þá ekki.

Þessi stefna ber árangur, sem sést ekki bara á tölfræðinni. Í fjölmörgum viðtölum við flóttamenn má lesa hvernig þeir sjá eftir að hafa komið hingað. Fyrrum þrælar, sem ekki vissu hvað „vegabréf” og „landamæri” eru, hafa nú fengið að kynnast því svo um munar. Við höfum kennt tugþúsundum Asíu- og Afríkubúa rækilega hvað evrópsk velferð og jafnaðarstefna þýðir. Hún þýðir jöfnuð og velferð fyrir ríkasta fólk í heimi. Þessi meðferð er þakklæti okkar fyrir þær auðlindir og framleiðsluvörur sem við neytum daglega úr fátækari heimsálfum. Þeirra vandamál eru ekki okkar. Okkar vandamál eru þau.

Heimildir

[1] „Ísland fyrir Íslendinga”. Morgunblaðið, 65. tölublað (18. 3. 1932), blaðsíða 2.

[2] „Verndun kynstofnsins.” Vísir, 351. tölublað (11. 12. 1938), blaðsíða 2.

[3] „Íslensku Gyðingarnir.” Morgunblaðið, 254. tölublað (25. 10. 1934), blaðsíða 2.

[4] „Útlendingar og íslenskt samfélag 1900-1940”, MA ritgerð Snorra Guðjóns Bergssonar, bls. 137-8. (ÞS. DR. db. 14/316.)

[5] Stjórnartíðindi 1936 A, 146-149. Tilvitnun úr „Útlendingar og íslenskt samfélag 1900-1940”, bls. 99.

[6] „Hermann Jónasson sendi Agnar Kofoed-Hansen til Þýzkalands til að læra aðferðir af nazistalögreglu Himmlers”. Þjóðviljinn, 283. tölublað (14. 12. 1945), blaðsíða 1 og 8.

[7] „Strangleynileg öryggsþjónustudeild stofnuð um miðja öldina”. Morgunblaðið, 22. september 2006.

[8] „Hlerað í síma lögregluþjóna”. Þjóðviljinn, 88. tölublað (14. 4. 1960), blaðsíða 10.

[9] Sjá til dæmis „Baráttan við myrkravöldin.” Mjölnir, 1.-2. tölublað (1. 2. 1936), blaðsíða 7.

[10] „Útlendingar og íslenskt samfélag 1900-1940”, bls. 137-8.

[11] Sama heimild, bls. 110.

[12] „Mannúð bönnuð á Íslandi”. Þjóðviljinn, 96. tölublað (28. 4. 1939), blaðsíða 3.

[13] „Fáránleg saga að „mannúð sé bönnuð á Íslandi””. Tíminn, 50. tölublað (2. 5. 1939), blaðsíða 1 og 4.

[14] „Á að gera Ísland að gróðrarstíu fyrir flakkandi erlendan landshornalýð?” Morgunblaðið, 64. tölublað (17. 3. 1938), blaðsíða 5.

[15] „Útlendingar og íslenskt samfélag 1900-1940”, bls. 138.

[16] „Stuck in a revolving door“. Human Rights Watch, 26. nóvember 2008, bls. 27.

[17] „Der Todesstreifen“. Der Spiegel, 30. nóvember 2016.

[18] „Sudan Blocks Migrants’ Path, Aiding Europe“. New York Times, 23. apríl 2018, bls. 1.

[19] Sjá til dæmis skýrslur Human Rights Watch, Rauða krossins, Lækna án landamæra, flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna, Pro Asyl, Amnesty International ofl. ofl.

[20] „Frontex – Landamærastofnun EU óskar eftir aðstoð Landhelgisgæslunnar | Landhelgisgæsla Íslands“. Frétt á vef Landhelgisgæslunnar.

[21] Sögu Ramez má finna hér.

[22] „Skýrsla um aðstæður hælisleitenda í Grikklandi“. Innanríkisráðuneytið, júní 2009.

This entry was posted in blogg on by . */?>

Hvers vegna kjósa þau Erdogan?

29. 6. 2018, 14:19

Síðastliðinn sunnudag kaus hreinn meirihluti Tyrkja yfir sig harðræðissinnaðan forseta sem hefur varpað sprengjum á eigið land og önnur, fangelsað blaðamenn og prófessora og annan forsetaframbjóðanda, látið loka tvöhundruð fjölmiðlum og látið breyta reglum um kosningar á meðan á atkvæðagreiðslu stóð. Maðurinn er að sjálfsögðu Recep Tayip Erdogan. Eftir kosningarnar staðhæfði hann frammi fyrir allri veröldinni að á sunnudaginn hefði átt sér stað „lýðræðisveisla“. Úr fjarska virðist þetta allt efni í ótrúverðuga skopstælingu af House of Cards, og maður situr eftir með spurninguna: Hvernig dettur fólki í hug að kjósa þennan mann einu sinni enn? Og hvernig kemst hann upp með svona útúrsnúning?

Stríð gegn stríði, klíka gegn klíku
Fyrsta vísbending að svari leynist í þingkosningum Tyrklands árið 2002, þegar flokkur Erdogans, AKP, komst fyrst til valda. Það var í sjálfu sér ótrúlegur árangur, enda nýbúið að stofna flokkinn úr leifum annarra flokka sem höfðu verið bannaðir. Ástæðan fyrir banni þeirra var hörð afstaða tyrkneska ríkisins gegn flokkum sem höfðu trúarlega eða kommúníska undirtóna, eða sem studdu við kúrdíska réttindabaráttu. Þetta var farið að valda frjálslyndum Tyrkjum áhyggjum um aldamótin, enda augljóst að margir voru rændir málsvara sínum á þingi með svona bannstefnu. Erdogan setti á fót AKP til að milda hana.

Fyrstu árin gekk Erdogan allt í haginn. Þótt AKP hafi aðeins fengið 34% atkvæða, þá fékk hann fyrir galdra flokkakerfisins tvo þriðju þingsæta, enda þurftu flokkar að fá minnst 10% atkvæða til að komast á þing. (Erdogan lofaði seinna að fella þennan þröskuld niður.) Næsta skref AKP var að vinna hörðum höndum að inngangi í Evrópusambandið. Því fylgdi alls kyns umbótalöggjöf sem þrengdi stakk gömlu klíkunnar sem hafði ráðið landinu. Sú klíka birtist í tveimur myndum: flokknum CHP, og hernum sem drottnaði yfir landinu.

Flokkurinn CHP var stofnaður samhliða lýðveldinu í Tyrklandi. Hann er málsvari hugmyndafræðinnar sem tyrkneska ríkið hefur fylgt í áratugaraðir, sem hljóðar svo: Tyrkland er fyrir Tyrki, og ef þú heldur að þú sért Kúrdi eða múslimi, þá er eins gott að þú geymir þá skoðun heima hjá þér. Með þessa teóríu í rassvasanum tóku ríkisstjórnir CHP til við að hreinsa trúarleg tákn úr opinberu lífi og strauja pólitískar misfellur úr kúrdísku héruðunum í suðaustri.

Hin klíkan er tyrkneski herinn. Hann álítur sig verndara þessarar sömu pólitísku hugsjónar, og hefur mörgum sinnum „leiðrétt“ tyrkneskar ríkisstjórnir þegar þær víkja af leið – árin 1960, 1971, 1980, 1997 og loks tvær tilraunir árin 2007 og 2016, sem Erdogan varðist. Að einhverju leyti er herinn sannarlega gæslumaður gamalla hefða, en aðallega ver herinn þær því þær tryggja honum völd.

Almenningur streymdi á göturnar og hnekkti valdaránstilrauninni 15. júlí 2016

Erdogan hefur verið meðvitaður um hættuna á valdaráni frá því hann var kjörinn árið 2002, og stærsta fjöðurin í hatti hans er að hafa varist þeim. Ekki nóg með það, hann virðist nú loks hafa sett herinn undir hæl lýðkjörinna yfirvalda.

Syrtir í álinn
Frjálslyndir Tyrkir kunnu Erdogan margar þakkir fyrir þessar umbætur. Með einkavæðingu, bættum lánskjörum og aukinni fjárfestingu í heilbrigðis- og menntakerfi jókst bæði hagvöxtur og hagur hinna verr settu. Stríðinu gegn Kúrdum, sem var um aldamótin ekki háð lengur með sprengjum heldur með harðræðislöggjöf og sérstökum dómstólum, var slúttað. Kúrdíska tungumálið hafði verið bannað opinberlega en var nú leyft aftur. Árið 2013 leyfði Erdogan sér jafnvel að segja eina kúrdíska setningu opinberlega – það hefði verið óhugsandi áður. Sama ár leyfði hann konum í opinberu starfi að ganga með blæjur aftur.

Ef vel var að gáð voru þó blikur á lofti. Erdogan ætlaði ekki bara að leyfa iðkun trúarinnar, heldur efla dáð hennar með stuðningi ríkisins. Ríkiseigur virtust hver á fætur annarri enda í höndum trúrra og tryggra AKP-manna. Fréttir bárust af því að uppbygging landsins væri baktryggð með ríkisfé, en framkvæmd af vinum og ættingjum Erdogan. Hagvöxturinn kom ekki úr iðnaði og framleiðslu, heldur úr endalausum byggingaframkvæmdum. Og svo var það þetta með þingið. Tíu prósenta þröskuldurinn hélt enn úti flokkum minnihlutahópa og umbótasinnuðum hreyfingum, meðan AKP, líkt og aðrir tyrkneskir flokkar, var ekki par lýðræðislegur innbyrðis. Erdogan réð lögum og lofum og skipaði fólk í sæti á listum eftir eigin höfði.

Steypa, steypa og aftur steypa. Kjördagur í Istanbúl

Pirringur vegna spillingar, endalausra byggingaframkvæmda og trúarlegra takta ríkisstjórnarinnar sauð yfir í Istanbúl sumarið 2013. Þar átti að smíða stórfellda verslunarmiðstöð í miðjum almenningsgarði í stíl Ottómanaveldisins (einsog ef fjölskylda Bjarna Ben myndi reyna að smíða hótel á Austurvelli í dag). Fjöldamótmæli komu í veg fyrir það, en hrottaleg viðbrögð lögreglunnar kveiktu samskonar mótmæli um allt landið og drápu á endanum ellefu manns. Erdogan hafði vit á því að kenna öðrum um og hætta við.

Þrátt fyrir þessa gráu bletti á glæstum ferli Erdogans var hann enn mjög vinsæll. Fjölmiðlar landsins höfðu enda margir hverjir lent í höndum sömu náunga og ríkisfyrirtækin, svo umfjöllun var honum almennt hliðholl. Nú upphófst líka stríð í Sýrlandi, og Tyrkir þökkuðu sínum sæla að hafa sterkan lýðkjörinn, friðelskandi, umbótasinnaðan leiðtoga. En nú fóru umbætur Erdogan að koma í bakið á honum. Við tók einhver ótrúlegasta kúvending sem nokkur stjórnmálamaður hefur reynt í lýðræðisríki.

Umbætur með súrt eftirbragð
Árið 2014 hafði Erdogan setið þrjú kjörtímabil á þingi sem forsætisráðherra og mátti ekki sitja þar oftar. Hann ákvað að verða forseti landsins í staðinn. Til að verða við því lét flokkur hans, AKP, setja ný lög sem gerðu forsetaembættið lýðkjörið. Hann ætlaði að vera forseti í umboði fólksins, ekki þingsins. Svo hófst hann handa við að breyta stjórnarskránni svo forsetinn yrði æðsta og valdamesta embætti landsins. Það var bara eitt vandamál: Kúrdum hafði vaxið ásmegin við allt frjálsræðið og þeir tefldu fram eigin manni í forsetaframboð – Selahattin Demirtas. Demirtas fékk 9% kjör, langt frá því að skáka Erdogan, en skuggalega nærri 10% þröskuldinum inn á þing.

Árið eftir, í júní 2015, voru þingkosningar og Demirtas leiddi saman femínista, minnihlutahópa, Kúrda og fleiri í flokkinn HDP og náði 13% kjöri. AKP tapaði 9 prósentum. Aldrei áður höfðu Kúrdar náð inn á tyrkneska þingið af eigin dáð. Erdogan hafði misst stjórn á friðnum og umbótunum. Hann sagði Kúrdum stríð á hendur. Sprengjum var varpað á kúrdískar borgir. Hann sagði að þeim væri beint að stjórnmálasamtökum Kúrda, en hann vissi svosem alveg að hann átti ekki mörgum atkvæðum að tapa þarna. Næstu kosningar myndi hann vinna algerlega með því að fá á sitt band tyrkneska þjóðernissinna og kúrdahatara, og með því gera Kúrdum erfiðara um vik að kjósa.

Þessi ákvörðun hljómar gersamlega klikkuð, en að henni var dálítill aðdragandi. Umbótastefnan var hætt að skila ábata og pólitíkusar í Evrópu töluðu opinskátt um að Tyrkland gæti auðvitað aldrei komist í Evrópusambandið, þar væru svo margir múslimar og fátækt brúnt fólk. Dannaðri rasistar töluðu um hvað landið væri menningarlega ólíkt vestrinu. Allt bar það að sama brunni, og tvær grímur runnu á Tyrki sem höfðu barist fyrir inngöngu í vestrið. Þeir höfðu gert sitt besta, nú átti að skella dyrunum í andlitið á þeim.

Merkel tyllir sér í gullsæti

Erdogan fékk hefnd fyrir þessa móðgun á besta tíma. Hann kallaði til nýrra kosninga sumarið 2015, einmitt þegar flóttamenn tóku að streyma til Evrópu. Allt í einu þurftu ríkustu lönd heims hjálp frá honum. Angela Merkel kom í heimsókn til Ankara að grátbiðja hann að stoppa flóttamennina. Erdogan lét Merkel, sem hatar prjál og glingur, setjast í gullið hásæti frammi fyrir fjölmiðlum. Nokkra þessara fjölmiðla hafði hann nýverið fært með valdi í eigu vina sinna. Þetta var tæplega glæstasti dagur vestrænnar siðmenningar, en Erdogan var himinlifandi. Hann hafði beðið drottinn um hjálp í kosningunum, og drottinn hafði sent honum þennan fáránlega erkiengil að norðan. Nú var hann ekki bara bjargvættur Tyrkja frá valdaránum hersins, stríðinu í Sýrlandi og fátækt – hann var orðinn stórmenni gagnvart Evrópu í kaupbæti.

Valdarán eða tvö
Tyrkneski herinn hefur áttað sig á því hægt og bítandi að hann getur ekki stýrt stjórnmálum landsins að vild lengur. Sennilega hefur valdaránstilraunin 2016 verið drifin af örvæntingu og máttleysi gagnvart þessari þróun, altént misheppnaðist hún hrapallega. Skriðdrekar óku út á götur Istanbúl og Ankara, herþotur flugu um, hermenn tóku yfir útvarpshúsið. En Erdogan hvatti almenning til að fara út á götur og taka þær í sínar hendur. Kallinu var svarað. Valdaráninu var hnekkt, en á þriðja hundrað manns voru drepnir.

Seinna kallaði Erdogan atburðinn „gjöf frá Guði“; gullið tækifæri til að slátra óvinum sínum. Hann setti strax á neyðarlög og margfaldaði hreinsanir í stjórnsýslu, háskólasamfélagi og fjölmiðlun. Tugþúsund voru sett í fangelsi. Neyðarlögin hafa verið endurnýjuð stöðugt síðan, sjö sinnum alls, og eru enn í gildi.

Þannig var andrúmsloftið þegar kallað var til þjóðaratkvæðagreiðslu í fyrra um eflingu forsetaembættisins. Erdogan stýrði landinu enn gegnum tengsl sín og sambönd, en embætti forsetans var mest uppá punt. Hann vildi gera það að eins manns ofurveldi. Þegar útlit var fyrir að hann myndi tapa atkvæðagreiðslunni lét hann breyta reglunum á meðan kosningar stóðu svo óvottaðir kjörseðlar yrðu leyfðir líka. Enginn veit hversu margir þannig kjörseðlar voru taldir og kjörstjórnin gaf engar upplýsingar um það, en Erdogan kom breytingunum í gegn með 51% atkvæða.

Leiðarlok
Nú, að loknum kosningum, ganga breytingar á forsetaembættinu loks í gildi. Hreinn meirihluti kaus Erdogan í embættið. Hér í friðsælum og menntuðum ríkjum Evrópu horfum við niður til þessarar þróunar með hryllings. Við búum fjarri stríði og fátækt og höfum ekki liðið valdarán hersins eða trúarlega kúgun. Á aðra milljón flóttamanna kom til allrar Evrópu undanfarin ár. Í Tyrklandi einu eru þrjár og hálf milljón á skrá, og eflaust fleiri óskráðir. Fyrir kosningar bentu margir vestrænir fjölmiðlar á vinsælasta keppinaut Erdogan, Muharrem Ince, og sögðu: Hvers vegna kjósa þau ekki hann frekar? Hann er svona líka fínn sósíaldemókrati. En það var fjarri lagi. Ince kemur úr gamla klíkuflokknum CHP, hann vill láta reka flóttamenn úr landinu, og er bara frjálslyndur í þeim skilningi að það er frjálslynt að skipta stundum um forseta. Það hefði kannski verið illskárri kostur að hafa hann núna, til að stoppa Erdogan og byrja uppá nýtt, en margir sem ég ræddi við gátu ekki hugsað sér að kjósa hann – hann væri of forpokaður og viðurstyggilegur afturhaldssinni.

Erdogan er maðurinn sem bjargaði Tyrkjum – frá fátækt, stríði, kúgun, valdaráni, klíkum og niðurlægingu Vesturlanda. Réttindi Kúrda eru betur varin nú en þau voru áður en hann komst til valda. Nú nýtir hann sér hreinsun stjórnsýslunnar til að gera sig að einvaldi landsins. Eins og hann sagði eitt sinn, fyrir langa löngu: Lýðræði er lest. Þú tekur hana þar til þú kemst á áfangastað, þá ferðu út. Líkingin var góð, og hefði mátt hringja nokkrum viðvörunarbjöllum þegar Erdogan komst til valda. En hún stemmir ekki alveg. Með sérhverjum kosningum í Tyrklandi er minna eftir af lýðræðinu, og þegar kosningarnar hætta að gefa Erdogan það sem hann vill, þá er hann nú kominn með nægileg völd til að það skipti ekki máli lengur. Lýðræði innifelur ýmsar varnir gegn alræði, eins og frjálsa fjölmiðlun og stjórnarandstöðu og stofnanir lausar við íhlutun ríkisins. Erdogan hefur notað kosningar og atkvæðagreiðslur eins og múrbrjót gegn þessum vörnum.

Ince flytur ræðu í Izmir rétt fyrir kosningar

Fólk hefur þó enn mikinn áhuga á stjórnmálum í Tyrklandi. Kosningaþátttaka á sunnudaginn var nær ótrúleg 87%, hundruð þúsunda fylgdust með ræðum frambjóðenda. Þegar Erdogan lýsti yfir sigri fylltust götur Tyrklands af fagnandi fólki. Flautandi bílar brunuðu um, ungar konur með blæjur héngu út um bílgluggana og veifuðu fánum. Stjórnarandstaðan játaði að Erdogan hefði unnið, en sagði að öll umgjörð kosninganna hefði verið ósanngjörn. Fjölmiðlar hefðu allir haldið með honum og ekki sýnt frá þeirra atburðum, neyðarlög voru notuð gegn þeim, margir þeirra voru í fangelsi. Lýðræði snýst enda um meira en kjörkassann.

This entry was posted in blogg on by . */?>

Smálán eru ekki rót vandans

15. 4. 2018, 15:04

Árið 2009, þegar fólki var hent úr húsum og vinnu, á leigumarkað eða inná fjölskylduna, birtust jakkafataklæddir björgunarhringir: smálánafyrirtækin. Alla sem vantaði reddingu í ólgusjónum þurftu bara að senda SMS. „Lögin eru nokkuð víð,“ sagði einn framkvæmdastjórinn. Hann meinti að þau væru ginnungagap. Uppfrá því hafa verið átök á þingi: Einhverjir vilja banna fátæklingum að taka smálán, aðrir vilja kenna þeim fjármálalæsi svo þeir falli ekki fyrir þeim. En það er bara eitt heilbrigt svar, þegar samfélagið er orðið svo morkið að smálánafyrirtæki eru farin að vaxa á því: Það þarf að útrýma fátækt.

Þetta þýðir ekki að smálán séu ekki ógeðslegt fyrirbæri. Það er til dæmis eitthvað alveg einstaklega svívirðilegt við það að GAMMA, sem kúgar úr fátækum leigjendum líftóruna, hafi á sínum snærum smálánafyrirtæki líka. Í upphafi mánaðar tekur þessi fjárfestingasjóður íslensku elítunnar næstum alla útborgun lágstéttarinnar í leigupening, og í lok mánaðar lánar hann sama fólki fyrir reddingum og óvæntum útgjöldum á okurvöxtum.

Gildran sem fátækir festast í kristallast í skilmálum smálána. Á meðan ríkt fólk getur fengið kúlulán á lágum vöxtum og borgað þau (ef það hentar þeim, eða fengið þau afskrifuð), þá þarft fátækt fólk að taka lán á mörghundruð prósenta vöxtum. Ríkt fólk kemst í gegnum hvaða greiðslumat sem er. Fátæklingar mega bara fá lán hjá þeim sem gefa skít í þau.

Þetta bætist ofaná aðra seyru sem fylgir fátækt: þak yfir höfuðið kostar bróðurpart af tekjum, maturinn er af ódýrustu sort sem skemmir heilsuna og bætir læknisgjöldum ofaná okurvextina og kúgandi leiguverðið. Það er klisja, en það er klisja því það er satt: það er dýrt að vera fátækur.

Smálán eru samfélagslegt eitur — og þau eru ekki smart. Síðustu daga hafa þau aftur rekið skrímslahöfuðið sitt uppí fjölmiðla, og betra fólk hrekkur við og vill láta banna ógeðið. (Þetta er, einsog fyrri daginn, fólkið sem á meiri peninga en svo að það þurfi sjálft smálán, en á samt ekki nógu marga peninga til að láta GAMMA ávaxta þá með rekstri smálánafyrirtækis.)

En hér er svekkjandi sannleikurinn. Ef tekjurnar þínar eru of lágar til að endast mánuðinn, þá þarftu einfaldlega stundum smálán til að redda þér. Ef þú átt nákvæmlega engan pening fyrir mat, því þú varðst að fara til tannlæknis, þá er betra að taka smálán en að svelta. Stundum viltu frekar herða beltið (ennþá meira) í næsta mánuði heldur en að eiga ekki fyrir afmælisgjöf handa barninu. Stundum þarftu smálán til að komast í eða klára nám.

Smálán eru ekki rót vandans. Þau eru sullurinn sem lekur úr veiku samfélagi. Maður bannar ekki sárin, og maður bannar ekki plástrana sem eru settir á þau. Maður læknar sjúkdóminn — og sjúkdómurinn er fátækt. Allt of lág laun, sum í boði Reykjavíkurborgar, og allt of lágar bætur, ofaní gersamlega hömlulausan húsnæðismarkað, eru ekki boðlegar þegar við erum í lengsta góðæri og mesta ríkidæmi Íslands frá upphafi. Ekki bara óboðlegar, þær eru glæpsamlegar.

Við höfum oft heyrt að kröfur láglaunastéttanna miði að því að leggja samfélagið á hliðina, að allt fari í rúst ef allir fá mannsæmandi laun. Þessi blekking er engu sannari í dag en hún var áður. Eini munurinn er að nú eru svonefndir vinstriflokkar farnir að bergmála þennan áróður auðvaldsins.

Sannleikurinn er sá að samfélagið er þegar farið á hliðina. Til að koma því aftur í lag þarf fólkið sem verður fyrir hversdagslegu ofríki braskara og félagsmálayfirvalda og láglaunavinnustaða að fá hlutdeild í stjórnun þess. “Ekkert um okkur án okkar” gildir líka um fátækt, og það er undir leiðsögn hinna fátæku sem við getum ráðið úr henni. Bönnum ekki smálán; útrýmum fátækt.

This entry was posted in blogg on by . */?>

Glerþak stöðugleikans

2. 4. 2018, 15:58

1
Arkítektinn

Fótgönguliðar stjórnmála okkar og efnahags eru menn einsog arkítektinn Manolis Vournous. Hann er hávaxinn og grannur, með þykka bauga undir augunum. Honum finnst gott að hafa hluti í röð og reglu.

„Ég vil að fólk láti hluti gerast og vil ekki beita þrýstingi, eða að aðrir beiti mig þrýstingi,“ sagði hann mér í desember 2016. „Það verða að vera skipanir. Það verður að vera stigveldi. Ég geri þetta og þú gerir hitt; þetta er mitt starf og þetta er þitt, því annars búum við til svona óreiðu.“

Vournous stýrir grísku eyjunni Kíos, og óreiðan sem hann vísaði til sást allt um kring. Bakvið skrifstofuna hans mótmæltu króknandi flóttamenn í óupphituðum tjaldbúðum. Fyrir framan húsið komu fasistar saman til að syngja þjóðsönginn og krefjast hreinsunar eyjunnar. Á næturnar var stundum ráðist á flóttafólkið og börnin þeirra hrelld. Fjölþjóðleg samtök unnu allt um kring án skýrrar samhæfingar. Túrismi var horfinn, hótelin tóm, veitingastaðirnir fengu bara heimamenn og nokkra sjálfboðaliða í mat. Allt var í klandri og arkítektinn leitaði árangurslaust að díagramminu, lausninni, sem myndi koma honum úr flækjunni. Continue reading

This entry was posted in blogg on by . */?>

Drepinn af íslenskum stofnunum

20. 7. 2017, 17:20

Í gær hitti ég mann í strætó. Hann vinnur á verkstæði og er hraustlega vaxinn og vel til fara, var glaður að sjá mig. Við hittumst síðast árið 2015 og það tók mig svolítinn tíma að koma honum fyrir mig. Það var svosem ekki skrítið. Síðast þegar ég sá hann var hann á geðdeild. Sagan hans, saga margra í hans sporum, er saga mjög sérkennilegrar geðsýki. Þessi sýki er búin til af íslenskum stofnunum, og hún getur drepið.

Sjúkdómsvaldar
Sumarið 2015 dró vinur minn mig í litla blokk nærri Laugardalnum. Við gengum inn í sirka tíu manna stofnanavætt fjölbýli með vínylgólf og plöstuð blöð á veggjunum. Í herbergi á efri hæðinni sat fúlskeggjaður, þrútinn og niðurlútur maður sem rétt muldraði þegar við komum inn. Hann var með brunasár á handarbakinu, ör á framhandleggjunum eftir hnífskurð og sárabindi um aðra höndina. Hann lét sér fátt um finnast þegar vinur minn kippti fram höndinni hans til að sýna mér.

“Hann er brjálaður,” sagði vinur minn og benti á gluggann, sem hafði verið lokað með spónaplötu. “Braut gluggann, ég held hann hafi ætlað að hoppa út.”

Maðurinn á rúminu var íranskur hælisleitandi sem átti að brottvísa til Ítalíu. Vandamálið var hvað hann lét illa. Það gekk erfiðlega að afgreiða málið hans meðan hann hagaði sér svona. Ég sagði við vinn minn að ég vissi ekki hvað ég gæti gert. Hælisleitandinn var í sambandi við heimsóknaþjónustu Rauða krossins, lögfræðing og félagsþjónustuna og kunningja sína í Reykjavík. Það var bara eitt að: Útlendingastofnun ætlaði að brottvísa honum. Því gat hvorugur okkar breytt. Við fórum heim, heldur lúpulegir.

Nokkrum dögum síðar sendi vinur minn mér skilaboð: “Gæjinn sem við hittum á laugardag er kominn á spítala.” Í tvær vikur fréttum við ekkert. Svo þetta.

frétt

Ég fór til hans á geðdeild að komast að því hvað hefði gerst.

“Ég labbaði bara að húsinu, ýtti á dyrabjölluna, gekk til baka og hellti yfir mig bensíni. Mig langaði að tala við lögfræðing.” Hann var skýrmæltur en talaði lágt og látlaust. Hann var ekki ruglaður, bara niðurbrotinn. “Mig langar að drepa mig sérhverja sekúndu, sérhvern dag, sérhverja mínútu, dag, viku, ár.” Móttökurnar á Íslandi hefðu verið vondar. “Ég man eftir viðtalinu við Útlendingastofnun. Þau sögðu að þeim væri sama um mig, þau bæru ekki ábyrgð á mínu máli.”

Nú er auðvitað líklegt að þetta hafi verið stílfærð minning hans um viðtalið. Starfsmenn íslenskra stofnana segja venjulega ekki að þeim sé sama um þig í opið geðið á þér. En það sem skiptir mestu máli eru ekki orð, heldur gjörðir. Og einsog Þorsteinn Guðmundsson, staðgengill forstjóra Útlendingastofnunar, tilkynnti daginn sem fréttir bárust af sjálfsmorðstilrauninni: “Framganga sem þessi og önnur sjálfskaðandi hegðun hefur ekki áhrif á framgang eða úrlausn mála.”

Meðferðin
Bæði í máli þessa manns, sem og í öðrum málum, er mér oft sagt að sumt af þessu flóttafólki sé bara veikt á geði. Ekki sé við Útlendingastofnun að sakast. En er það rétt? Vinur minn, sem kynnti mig fyrir hælisleitandanum sem kveikti í sér, var sjálfur hælisleitandi á Íslandi forðum daga. Eftir langa málsmeðferð hafði Útlendingastofnun ætlað að brottvísa honum líka — og hann reyndi að fremja sjálfsmorð. Hann fékk síðar hæli, og náði eftir það skyndilegum og annars óútskýranlegum bata.

Andleg heilsa hælisleitenda er vissulega oft veikburða, ekki síst því margir þeirra eru á flótta undan hörmungum. Það er sérstök ástæða til að fara varlega með hana, og þessvegna var sjokkerandi að lesa þessi ummæli læknis á Facebook í júní í fyrra:

Ég hef sinnt mörgum flóttamönnum og hælisleitendum á Bráðamóttökunni. Þeir hafa verið með eins mörg mismunandi vandamál og Íslendingar, sumir verið veikir á líkama, aðrir á sál, sumir komið útaf litlu og aðrir mikið veikir, eins og Íslendingar sem leita til okkar. Öfugt við frjálst fólk hér í landi hefur þetta fólk þó þurft að ganga í gegnum strangt aðgangsferli til að komast til mín, einum man ég eftir sem kvartaði undan lífshættulegum einkennum í tvo daga áður en hann var aðstoðaður við að komast á Bráðadeildina. Honum var ekki trúað, honum var ekki hjálpað við að komast til okkar og ekki hafði hann fjárráð til að ferðast eða þekkingu á ferðamátum milli sveitarfélaga hér. Að minnsta kosti helmingur þeirra í þessum hópi sem ég hef sinnt hefur sagt þetta, þeim var ekki trúað og þeim gert erfitt að leita sér hjálpar. Þegar ég hringdi einu sinni fyrir skjólstæðing í símanúmer sem þeim var gefið upp til að hringja í vegna vandamála mætti mér íslensk rödd sem sagði þetta fólk alltaf vera að kvarta og gera sér upp veikindi.

Læknirinn skrifaði þessa færslu í tilefni af ákvörðun innanríkisráðuneytisins að loka á heimsóknir til heimkynna hælisleitenda. “Þessar heimsóknarreglur munu ýta undir mannréttindabrot hér og það mun verða mannslát á okkar allra ábyrgð,” skrifaði læknirinn.

Daginn eftir bárust fréttir af undarlegu sinnuleysi. Hælisleitandi í húsnæði Útlendingastofnunar á Grensásvegi hefði fengið hausverk. Öryggisvörður hússins hringdi í Útlendingastofnun en enginn svaraði, svo hælisleitandinn fékk verkjalyf og fór að sofa. Þegar hann vaknaði morguninn eftir var blóð á koddanum sem vætlaði úr eyrunum hans. Aftur var hringt í Útlendingastofnun, sem sagðist mundu bóka tíma hjá lækni. Þegar komið var á sjúkrahúsið var enginn tími á skrá og maðurinn sendur heim. Þar tóku vinir hans málin í sínar hendur, hringdu á sjúkrabíl og fengu honum loksins læknishjálp.

Einsog svo margt sem viðkemur Útlendingastofnun var hér einhver óútskýranleg gloppa á gráa svæðinu milli misskilnings, vanhæfni og skeytingarleysis. Ef til vill skall hurð nærri hælum, sem svo oft áður.

Afleiðingar
Í desember rættist svo spá læknisins. Hælisleitandi sem bjó á Víðinesi, einni af hinum fjarlægu skítugu flóttamannageymslum Útlendingastofnunar, var þunglyndur og vinir hans höfðu áhyggjur af honum. Þeir báðu öryggisvörð hússins og Útlendingastofnun að gera eitthvað í málunum. Ekkert gerðist. Maðurinn hellti bensíni yfir sig í anddyri hússins, kveikti í sér og hljóp út. Hann var fluttur á sjúkrahús en dó viku síðar af sárum sínum.

Hælisleitandinn var frá Makedóníu og hafði fengið höfnun hælisumsóknar sinnar, en flóttamenn þaðan eru sakaðir — meðal annars af forstjóra Útlendingastofnunar — um að skemma íslenska hæliskerfið með ósanngjörnum hælisumsóknum.

Það gefur ágæta mynd af stemmingunni á Víðinesi að í frétt Rúv af atburðinum var í framhjáhlaupi minnst á að “í hádeginu hótaði annar hælisleitandi að skaða sjálfan sig”. Hann hafi verið “fluttur á lögreglustöð”. Þannig eru nefnilega viðbrögð íslenskra stofnana ef útlendingar á flótta undan ofsóknum, stríði og fátækt þakka fyrir móttökurnar sem við gefum þeim með þunglyndi og sjálfsskaða: Við læsum þá inni og spyrjum þá hvern djöfulinn þeim gangi til með þessum dónaskap. (Stutt google-leit gefur til kynna að fólk sem sækir um hæli hefur ítrekað reynt að kveikja í sér á Íslandi, bæði í geymsluhúsnæði Útlendingastofnunar, fyrir utan stofnunina sjálfa og við húsnæði Rauða krossins.)

Eftirmálar
Það síðasta sem íranski hælisleitandinn sagði við mig á geðdeildinni var: “Óskir, von, framtíð, líf, þýðir ekkert fyrir mér. Það er brandari í mínum eyrum. Framtíð… ég get ekki almennilega séð það fyrir mér.”

Á meðan hann var á geðdeild braust Útlendingastofnun inn til hans og flutti dótið hans annað. Þeim þótti réttara að hann byggi í öðru húsi í Hafnarfirði. “Þeir fóru heim til mín, mega þeir það?” spurði hann blaðamann í kjölfarið. “Af hverju gerðu þeir það? Má ég ekki eiga mér neitt rými út af fyrir mig?” bætti hann við. “Það er ótrúlegt virðingarleysi að farið sé inn á heimili mitt og rótað í eigum mínum. Þarna er er komið fram við mig eins og ég sé ekki manneskja heldur dýr… eða eins og ég sé bara dauður. Hvernig geta þeir gert þetta? Má þetta í alvörunni á Íslandi?”

Honum var synjað um hæli síðar um haustið, fékk áfall og var aftur lagður inn á spítala. Hvernig honum tókst loks að fá landvistarleyfi veit ég ekki. Það eina sem ég veit er að eftir að hann mátti vera hér hætti straumurinn af þunglyndispóstum á Facebook. Það birti yfir, hann var brosandi á myndum, snyrtilegur og hamingjusamur. Einsog vinur minn, sem fékk hæli eftir að hafa verið á barmi sjálfsmorðs fyrir hálfum áratug, og varð að heilbrigðum og fyndnum Íslendingi. Einsog annar vinur minn, sem hætti að borða og drekka þegar öllum vinum hans var brottvísað og var tvisvar lagður hálfmeðvitundarlaus á sjúkrahús. Hann er glaður og reifur í dag. Þeir læknuðust allir eftir að Útlendingastofnun hætti við að brottvísa þeim. Það þarf sérstaka sort af þvermóðsku til að sjá ekki orsök batans.

Útlendingastofnun, með löggjafann að baki sér, eignar sér flóttamenn sem sækja um hæli á Íslandi. Meðan þeir eru hér hefur hún líf þeirra og geðheilsu í höndum sér. Í stað þess að sýna alúð og nærgætni sviptir hún þá vilja og virðingu, frelsi og reisn. Hún eyðileggur líf þeirra af sláandi skeytingarleysi. Hún hótar þeim af járnharðri reglufestu að þeim verði brottvísað — örlög sem margir flóttamenn setja dauðanum að jöfnu. En það kemur starfsfólki Útlendingastofnunar ekki við. Hælisleitendur skulu passa í hennar eyðublöð, lagadálka og vinnuferla. Ef þeir kreistast, kremjast og drepast í leiðinni er það ekki tilefni til neinnar naflaskoðunar. Bara þjappa hópinn, segja í fréttatilkynningu að ekkert muni breytast, og halda áfram þar sem frá var horfið.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , on by . */?>

Föstudagsviðtal um illsku

25. 6. 2017, 22:40

Í fyrra tók Fréttablaðið Kristínu Völundardóttur, forstjóra Útlendingastofnunar, í “föstudagsviðtal“. Þessi viðtöl eru pallborð efri millistéttarinnar til að tjá áhyggjur sínar, almennum lesendum fríblaðsins til góða, og Kristín olli ekki vonbrigðum. Hjarta landvarðarins var á borðið lagt. “Rætin umfjöllun hefur djúp áhrif á okkur,” sagði hún fyrir hönd starfsfólks Útlendingastofnunar. Þau væru manneskjur, ekki vélar. En mótlæti gerði hópinn bara sterkari. “Við erum samrýnd og þetta þéttir okkur.”

Hún reifaði í löngu máli hið þakkarlausa starf sem kerfisbundin brottvísun flóttamanna er — og jú, það er örugglega mjög vont að vera svona illa liðin. Ég man ekki hvort einhver hælisleitandi hafi verið tekinn í sambærilegt “föstudagsviðtal”, en eflaust gætu flóttamennirnir og fólkið sem brottvísar þeim veitt hvert öðru huggun og skilning gegn þeirri tortryggni og útskúfun sem mætir þeim í samfélaginu.

Þar sem þessi viðtöl voru eðli málsins samkvæmt öll birt rétt áður en fólk byrjaði helgina var reynt að halda þeim á hressu nótunum, svo Kristínu var leyft að fleygja fram gagnrýnilaust staðhæfingum einsog “stefna útlendingalaga er ekkert hörð,” og forvitnilegum frösum einsog “það er ekki vilji okkar eða einbeitt stefna að vera vond.” Í staðinn fyrir að spyrja nánar hvaða merking lægi í þessum orðum, þá var hún spurð hvort það væri ekki “erfitt að neita fólki um að skapa sér betra líf?” Ojú, svaraði hún, “það er alltaf erfitt.”

Kannski það sé sjálfhverfa af þessu tagi sem beindi athygli hennar frá því að nær allir skjólstæðingar hennar þola ekki Útlendingastofnun. Í vetur reyndi stofnunin að meta stöðu flóttamanna í sinni umsjá, en bara 15% svöruðu könnuninni. Fólk þorði einfaldlega ekki að segja frá högum sínum “af ótta við að svör þeirra færu lengra eða væru notuð gegn þeim.”

Íslendingum líkar stofnunin ekki heldur — hún nýtur minnst trausts allra réttarfarsstofnana ríkisins.

Fyrir þá sem hafa prófað að eiga í langvarandi samskiptum við stofnun Kristínar er þetta ekki skrítið. Orð, rök, skynsemi og samúð hafa ekkert með málin að gera í Skógarhlíð 6. Í besta falli er tekið mark á pappírum úr opinberum stofnunum. Þetta gerir fólk vitfirrt af armæðu og örvæntingu, því nær allt lífið þeirra — sérstaklega fólks sem kemur utanfrá Evrópu — er ekki skráð opinberlega. Þær umsóknir og pappírsmartraðir sem við þekkjum öll eru paradís hjá umsóknum um hæli og dvalarleyfi hjá UTL.

Skjólstæðingum stofnunarinnar er haldið frá heilbrigðisþjónustu og lögreglan hefur brotist inn til þeirra að gá hvort þau séu að fela peninga eða skilríki. Þegar kaldranalegt viðmót og lélegt menningarlæsi starfsmanna bætist við, svo ekki sé minnst á ákvarðanir sem markast af vanhæfni eða skeytingarleysi, þá er ekki að furða að þessi stofnun njóti varla trausts nokkurs manns. Og þegar viðhorfið innangarðs er einsog í umsetnu virki, þar sem hópurinn stendur saman gegn bæði Íslendingum og útlendingum, er ekki skrítið að þessi stofnun sé í íslensku samfélagi líkt og eitraður fleinn.

Þetta væri svosem bara útí bláinn og innantómar vangaveltur ef ekki væri fyrir yfirstandandi mál Eugene og Regínu, foreldri barna sem fæddust hér á landi. Að forminu til er þetta svipað málum Tony Omos (lekamálið) og Paul Ramses (flugvallarmálið). Einsog fyrir áratug síðan er verið að splitta upp svörtum fjölskyldum og fleygja saklausu fólki í buskann (ekki af einbeittri vonsku, samkvæmt föstudagsviðtalinu, og samkvæmt stefnu sem er “ekki hörð”). Einsog í hin skiptin er byrjað að reifa, stundum í fjölmiðlum, hvort karlinn hljóti ekki að hafa verið glæpamaður, enda virðast sumir eiga erfitt með að ímynda sér svartan mann sem er ekki krimmi.

Kannski er þetta, einsog Kristín segir, ekki allt illska. Kannski skrifast mikið af þessu á slöpp vinnubrögð. Sögur af vanhæfni Útlendingastofnunar hafa borist mér frá fyrrum starfsmönnum, íslenskum lögfræðingum og úr sænsku útlendingastofnuninni — og auðvitað hef ég getað séð getuleysið í beinni útsendingu með því að horfa á eina skrifræðiskatastrófuna á fætur annarri breiða úr sér fyrir framan nefið á mér undanfarin ár. (Nú síðast var manni brottvísað til Ítalíu, því yfirvöld þar “báru ábyrgð á málinu hans.” Á flugvellinum úti sagði ítalska lögreglan að það væri rangt, og sendi hann til Íslands aftur.) Útlendingastofnun hefur kallað yfir sig allt það vantraust sem henni er sýnt sjálf, með eigin starfsháttum, með því að vera viljugur og stundum ákafur framkvæmdaaðili ömurlegrar löggjafar. Þegar hingað er komið við sögu er mér eiginlega sama hvort þetta sé vanhæfni — svona vanhæft fólk er illt ef það lætur ekki af störfum.

Þessi langi útúrdúr frá föstudagsviðtalinu er til að setja upphafleg komment forstjórans í samhengi — forstjórans sem er með 1,34 milljónir á mánuði í laun, forstjórans sem er með íslenskt vegabréf og þarf ekki að óttast brottvísun eða fyrirvaralausa handtöku um miðja nótt eða húsleit eftir földum peningaseðlum. Manneskja í þessari stöðu hefur ekki efni á að kalla sig fórnarlamb.

Þegar fólk spyr sig: Hvernig geta embættismenn verið svona grimmir? þá er svarið kannski bara að þeir vita ekki hvað þeir eru að gera, og eru of uppteknir af pappírum og sjálfum sér til að komast að því. Kærunefnd útlendingamála fékk nýverið leyfi til að dæma um mál útlendinga án þess að tala við þá fyrst, og dómstólar hafa lengi réttað yfir flóttamönnum sem hefur þegar verið brottvísað. Þetta er systematísk hunsun sem lög og embættismenn viðhalda af miklum móð. Það er einfaldara að vera ógeðslegur við fólk ef þú þarft ekki að tala við það — og lögreglan, sem þarf að tala við fólkið, vísar til úrskurða embættismannanna. Þetta snilldarlega fyrirkomulag læsir hringekju ábyrgðarfirringarinnar í sessi. Allir eru stikkfrí. Skeytingarleysið er kerfisbundið.

En þetta leiðir sumsé allt að því sem ég hef verið að hugsa síðustu daga, og ætlaði í rauninni að segja: Mér var kennt fyrir löngu að kalla ekki aðrar manneskjur vondar. Ég er ekki viss að það hafi verið rétt. Mér finnst bara hreint ekki það langt milli skeytingarleysis og illsku.

This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , on by . */?>

Saga lögreglunnar og andstæðinga hennar

14. 6. 2017, 12:50

Sumarið 2017, tveimur mánuðum eftir að sérsveit ríkislögreglustjóra fékk nýja búninga og bíla, var ákveðið að hún myndi spóka sig á þjóðhátíðardaginn með hlaðin vopn. Dagur kandífloss, blöðrugleði og innihaldslausra hátíðarávarpa fengi núna líka að vera áminning um hvað heimurinn er vondur staður að búa í. Friðsælasta land heims, tilkynntu yfirmenn lögreglunnar, væri miklu hættulegra en nokkurt okkar gerði sér grein fyrir. Huldar ógnir tengdar flóttafólki, innflytjendum og jafnvel túristum steðjuðu að okkur.

Það sem fylgdi ekki sögunni var hinn langi aðdragandi þessarar ráðagerðar og valdataflið sem bjó ríkislögregluna til. Lögreglan á Íslandi spratt upp sem öryggisgæsla stórfyrirtækis og hefur uppfrá því verið nátengd flokki verslunarmanna. Höfundar lögreglunnar og hugmyndafræðingar, varaliðar hennar og verndarar, hafa verið úr þeim flokki. Þeir hafa svo aftur starfað undir hennar verndarvæng gegnum súrt og sætt og reynt að tryggja með henni “að ríkisvaldið gæti haft í fullu tré við sérhvert árása- og ofbeldislið í landinu,” í orðum Ólafs Thors. Í víðum skilningi er hún því pólitískt afl, og hlutverk hennar í gegnum söguna hefur verið þrungið pólitískri merkingu. Þetta er sagan af því hvernig það hlutverk varð til og hversu mörg okkar hafa, í augum yfirvalda, tilheyrt árása- og ofbeldisliðinu sem lögreglan ver samfélagið fyrir.

Stórfyrirtæki í Reykjavík
Á átjándu öld var blússandi góðæri í Reykjavík. Skúli Magnússon og fjárfestar tengdir honum höfðu keypt stórar græjur, “Innréttingarnar”, til að vefa ull og vinna tau. Að sanníslenskum brag voru græjurnar passlega stórar fyrir tíu sinnum stærri þjóð og Innréttingarnar fóru fljótlega á hausinn. Í millitíðinni varð til dálítil siðmenning í Reykjavík, með þeirri drykkju, kynsjúkdómum og fátækt sem henni fylgja. Fólk sem stal sér til matar í harðæri var sent í þrælahald til Danmerkur, eða drepið af sýslumönnunum ef þeir tímdu ekki uppihaldi meðan beðið var eftir skipi.

Til að verjast flónsku, örbirgð og fíflaskap almennra borgara réðu forsvarsmenn Innréttinganna tvo öryggisverði. Þeir skyldu rölta um götur bæjarins á næturnar með gaddakylfur og yfirheyra alla sem þeir sáu, jafnvel sekta þá sem óvarlega fóru með ljóskerin sín. Þessi þungavopnaða öryggisgæsla stærsta fyrirtækis landsins var okkar fyrsta lögregla.

Vaktari með verkfærið sitt. Myndin var teiknuð 1848 af Albertus van Beest og er geymd í Þjóðminjasafninu.

Vaktari með verkfærið sitt. Myndin var teiknuð byltingarárið 1848.

Vöktun borgarinnar þessi ár var flestum til ama nema verslunarmönnum, sem héldu henni stundum úti á eigin kostnað eftir að Innréttingarnar fóru á hausinn. Eftir því sem á leið tókst þó hægt og bítandi að pranga henni uppá hið opinbera, sem tók að innheimta skatta af ótrúlega óviljugum almenningi til að standa undir henni.

Lögreglumenn í Reykjavík voru fyrstu öldina flestir drykkjumenn, slæpingjar og skálkar. Einn þeirra bjó í “hneykslanlegri sambúð” með maddömmu nokkurri Bagger, seldi áfengi í tráss við lög og hélt píuböll þar sem hann spilaði undir á flautu. Var hann að lokum rekinn. Annar átti það til að berja á föngunum sem hann hafði að atvinnu að gæta og endaði á að drepa einn þeirra með barsmíðum. Fangelsisstjórnin bað honum vægðar, enda þótti þetta ekki sérlega voðalegt, og hélt hann því starfinu.

Lækjartorg 1874. Borgin var og hefur alltaf verið alræmd fyrir lauslæti og sukk, en allir á myndinni virðast vera að haga sér, enda hátíðisdagur.

Lækjartorg 1874. Borgin var og hefur alltaf verið alræmd fyrir lauslæti og sukk. Allir á myndinni virðast þó vera að haga sér, enda hátíðisdagur.

Helstu störf lögreglunnar voru í þá tíð að vernda betri borgara og verslanir fyrir þjófum og eldi, passa að fólk væri ekki í Reykjavík án leyfis og að keyra ofdrukkna menn uppí svartholið í “drykkjumannakerrunni”. Þetta tók að breytast um aldamótin 1900 þegar íbúum bæjarins fjölgaði stórum. Sjávarútvegur tók kipp og stétt útgerðarmanna varð til. Hatrömm stéttabarátta var háð með tíðum verkföllum, þar sem lögreglan varði atvinnuveitendur gegn kröfum verkamanna. Kallaði hún oft til varalið, enda fámenn sjálf. Þegar lögreglumennirnir sjálfir kröfðust kjarabóta voru þeir iðulega reknir.

Brottvísun
Árið 1921 varð svo undarlegt uppbrot í þessari þróun. Ritstjóri Alþýðublaðsins hafði heimsótt Sovétríkin og komið heim með ættleiddan rússneskan strák. Þegar kom í ljós að strákurinn var með augnsjúkdóm sem gat smitast taldi yfirvaldið að honum væri best fyrir komið í öðru landi, og reyndi að fjarlægja hann frá Ólafi. Hann varðist með vinstrisinnuðum félögum sínum og hratt lögreglu á brott. Aftur var reynt með 65 manna varaliði sem tókst að brjótast í húsið og draga út strákinn, en í slagsmálum við varnarliðið náðist strákurinn inn í hús aftur.

Nú þótti lögreglustjóra nóg komið. Verslunarmönnum hafði þótt volæðislegt að horfa uppá veiklulega framgöngu lögreglunnar og hjálpuðu þeir að manna varalið sem tók undir sig Iðnó. Það taldi hálft þúsund manns. Lokað var á síma Ólafs. Liðið ruddist inn og handtók húsráðendur og strákinn. Honum var brottvísað og Ólafur settur í gæsluvarðhald.

Fjórir Gúttóslagir
Kreppan mikla tók sig svo upp á Íslandi um 1930. Atvinnulausum fjölgaði, en þeir fengu engar bætur og upphófust nokkrum sinnum slagir milli áhorfenda og lögreglu í fundarhúsi bæjarstjórnar um hvort bærinn ætti að bjóða atvinnulausum bótavinnu. Einn bæjarfulltrúanna sem stóð í vegi fyrir því var Jakob Möller.

Jakob Möller var ekki bara bæjarfulltrúi og alþingismaður Sjálfstæðisflokksins, heldur líka eins manns Fjármálaeftirlit síns tíma. Hann var rekinn úr því embætti fyrir að gera “verra en ekki neitt” árið 1934. Það var á allra vitund að “Jakob var óhæfur í starfið og embættið stofnað sem bitlingur fyrir hann”, enda hafði hann “ekki einu sinni reynt að hafa eftirlit með bönkunum” og “í stærstu stofnunina, sem hann átti að endurskoða, Landsbankann, [hafði] hann ekki komið í 3 ár, samkvæmt frásögn sjálfs bankaráðsins.” Fyrir þetta hafði hann þegið frá ríkinu sautján þúsund krónur á ári, sem var meira en ráðherrakaup.

Nokkrum árum seinna var Jakob orðinn fjármálaráðherra Hermanns Jónassonar.

Fimm árum seinna var Jakob orðinn fjármálaráðherra.

Meðan á fyrsta Gúttóslagnum stóð æpti Jakob yfir múginn að svona nokkuð myndi ekki hafa nein áhrif á afstöðu sína til bótamála. Slagirnir höfðu hins vegar mikil áhrif á lögreglustjórann, sem fór að draga sér varalið úr bænum til að vernda fundina, líkt og hann hafði gert í baráttunni gegn verkföllum. Fór söfnun varaliðsins þannig fram að yfirlögregluþjónn gekk um bæinn með félagatal Sjálfstæðisflokksins og bað Sjálfstæðismenn og Heimdellinga að berjast með sér gegn verkfallsliðum og atvinnuleysingjum. Hjálparsveinarnir fengu þá kylfur, armbönd og búninga, allt eftir því hvað var til í skápum löggunnar.

Slagirnir á bæjarstjórnarfundunum héldu áfram og náðist sumarið 1932 loks að knýja fram atvinnubótavinnu. Atvinnulausum fjölgaði þó stöðugt og í nóvember hugðist bæjarstjórnin lækka kaupið í vinnunni til að standa undir henni. Það þurfti auðvitað að vera hinn peningaplokkarinn Jakob Möller, af öllum mönnum, sem mæltist fyrir lækkun bótanna fyrir fullu húsi atvinnuleysingja og aktívista. Órói varð að slagsmálum og lögreglustjórinn, Hermann Jónasson, kallaði til alla lögregluþjóna bæjarins. Sjálfur stakk hann hins vegar af uppá skrifstofu að gegna öðrum störfum.

Nær allt lögreglulið bæjarins lá óvígt eftir slaginn. Ríkisstjórninni brá í brún. Hún borgaði sem snarast það sem borgina vantaði uppí atvinnubótavinnuna. Síðan var tekið til hendinni. Ólafur Thors sagði að nú ætti “að gera út um það” hvort ríkið ætti “að standa eða falla.” Byssur, hjálmar og táragas voru keypt fyrir lögregluna, öll vopn fjarlægð úr búðum bæjarins, forsprakkar mótmælanna dæmdir til sekta og fangelsis og fjárframlög til lögreglunnar aukin sem nam 13 manna kaupi. Bæjarstjórnarfundirnir voru eftir þetta haldnir á efstu hæð Eimskipafélagshússins, svo betur mætti verja þá. Andvirði nokkurhundruð milljóna nútímakróna var eytt í stórt varalögreglulið til tveggja ára. Loks var ríkislögregla sett á fót.

Hús Eimskipafélagsins.

Hús Eimskipafélagsins.

Sjálfstæðismenn sögðu fólk þurfa að skilja að það þýddi ekkert að mótmæla ríkisvaldinu. Þegar Hermann Jónasson varð forsætis- og dómsmálaráðherra nokkrum árum síðar réð hann nýjan lögreglustjóra sérstaklega til að aga íslenska lögreglumenn og hefja njósnir gegn óvinum ríkisins.

Ríkið ætlaði ekki að láta undan kröfum mótmælenda aftur.

Ísland í NATO
Þann 30. mars árið 1949 átti Alþingi að samþykkja inngöngu Íslands í NATO, hvað sem almenningur tautaði og raulaði. Stór hópur fólks hittist við Miðbæjarskólann og gekk á Austurvöll til að krefjast þjóðaratkvæðagreiðslu um málið. Bjarni Benediktsson, sem sat innandyra, var ekki á þeim buxunum. Hann hafði skipað nasistann Sigurjón Sigurðsson í embætti lögreglustjóra í Reykjavík tveimur árum fyrr, og Sigurjón stóð nú vaktina. Hann hafði hlerað síma aktívista og sósíalista um allan bæ og hafði safnað Sjálfstæðismönnum í varalið gegn kröfugöngunni.

Ekki stíga á grasið.

Þingið hafnaði beiðninni um þjóðaratkvæðagreiðslu og mótmælendur tóku að grýta þinghúsið. Lögreglumenn og varalið streymdu út með kylfur á lofti. Slagsmál upphófust, táragasi var skotið yfir Austurvöll og mótmælendur flæmdir burt frá þinghúsinu. Ísland gekk í NATO fimm dögum síðar.

Dagurinn þegar vitstola hvítliðaskríll réðst á tryllta kommúnista, þegar Ísland gekk í "varnarbandalag lýðræðisþjóða" með því að skjóta táragasi að fólki sem vildi greiða atkvæði um það.

Vitstola hvítliðaskríll ræðst á tryllta kommúnista. Forsíður flokksblaða daginn eftir.

Þrátt fyrir þessa velheppnuðu vörn gegn lýðræðinu óttuðust yfirvöld frekari uppreisnir og stofnuðu sérstaka öryggisdeild lögreglunnar til að njósna um óvini sína í röðum almennings. Safnaði Sigurjón miklum gögnum um þá, en brenndi megnið af þeim í götóttri olíutunnu vorið 1976 þegar hann taldi sig eiga betra embætti í vændum.

Ómerkilega fólkið
Þegar nær dregur okkar tímum virðast samskipti lögreglu og almennings breytast. Þar sem áður voru grimm og blóðug átök eru nú kyrrlátar mótmælagöngur. Þetta er álitið til marks um þroskaða (ef ekki ofþroskaða) lýðræðishefð Íslendinga. Hvergi kemur þetta skýrar fram en í verkföllum. Þau voru áður blóðug barátta, verkfallsverðir þurftu í alvörunni að beita valdi til að halda þeim við. Slík verkföll voru mýmörg í kreppunni miklu, og jafnvel árið 1955 lokaði sex vikna verkfall tólf stéttarfélaga á allar samgöngur til og frá landinu. Grjótgarðar voru hlaðnir á vegina sem liggja úr borginni. Verkfallsverðir voru miklu fleiri en lögreglumenn borgarinnar. Svona gerist ekki lengur. Í nýliðnu verkfalli framhaldsskólakennara var, til dæmis, einn verkfallsbrjótur. Hann gafst upp um leið og hann var beðinn að hætta. “Ég hlýddi því bara,” sagði hann.

Það er engu líkara en við séum öll orðin börn. Við eigum ekki bara að hlýða “leikreglum” lögreglunnar, heldur eigum við líka að fá hjá henni leyfi fyrir mótmælum og hætta þeim þegar hún segir. Þegar við gerum það ekki megum við búast við skömmum. Lögreglan er okkar einkennisklædda fóstra.

Þegar samband lögreglu og mótmælenda verður einsog milli leikskólabarna og kennara gerast skrítnir hlutir ef mótmælendur hætta að hlýða. Vorið 2008, þegar vörubílstjórar reyndu (líkt og 1955) að loka einni götu úr bænum, tók lögregluna bara nokkra klukkutíma að fá nóg. Gjörningurinn og viðbrögðin vöktu svo mikla undrun að bein sjónvarpsútsending var frá staðnum allan daginn.

Þegar umhverfisverndarsinnar reyndu að stöðva með berum höndum smíði Kárahnjúkavirkjunar brást lögreglan jafnvel stífar við. Mótmælendurnir voru eltir af lögreglu, óeirðalögreglu og sérsveit um allar trissur, handteknir gegndarlaust, lögreglan laug að þeim og um þá og öllum útlendingum í hópnum var hótað með brottvísun, þar af einni konunni fyrir að “ógna grundvallargildum samfélagsins”.

Hér má sjá myndband af verði laganna að refsa konu úr Saving Iceland fyrir að skvetta skyri með því að lemja höfði hennar ítrekað í götuna, á meðan félagi hans slær með kylfu alla sem reyna að hjálpa henni.

Þegar þörf krefur hafa yfirvöld ekki vílað fyrir sér að láta lögregluna banna mótmæli algerlega. Í eitt af þremur skiptum þar sem ríkið bauð hingað til lands kínverskum mannréttindabrjótum þurfti að passa að þeir þyrftu ekki að sjá mótmælendur. Vissulega voru gestirnir með fjöldamorð, nauðganir og pyntingar á samviskunni, en þeim myndi sárna gagnrýni. Því voru mótmælendur umkringdir og áreittir og stundum hreinlega handteknir af lögreglunni.

Lögreglan myndar mannlegan múr svo ekki sjáist í örfáa mótmælendur. Bíll og rúta voru líka höfð til taks sem skermir.

Lögreglan myndar Kínamúr svo ekki sjáist í örfáa mótmælendur.

Það er hægt – ekki gefast upp
Allar þær aðgerðir voru barnaleikur miðað við veturinn 2008-9, þar sem mótmælt var af slíkum móð að lögreglan var nærri því knésett. Yfirmenn lögreglunnar höfðu snemma tekið ákvörðun um “mjúka nálgun”, fyrst og fremst því þeir áttu ekki mannafla og tæki til annars. Óþreyja almennra lögreglumanna þennan vetur var þó greinileg. Einn lögreglumaður sagði um vörubílamótmælin að lögreglan hefði örugglega bara verið grýtt uppá “sportið” og fólk “hafi ekki fattað hvað var í gangi” þegar hún vildi rýma svæðið. Stuttu eftir búsáhaldabyltinguna sagði annar: “Ég sá þetta fyrir mér eins og uppeldi á óþekkum krakka. Honum var alltaf hleypt einu skrefi lengra eins og litlir prakkarar gera.”

Um “mjúku nálgunina” var þó nokkuð almenn sátt meðal ráðherra, ríkislögreglustjóra og lögregluforingjanna – en ekki alveg alls staðar. Stjórnandi sérsveitar vildi að mun harðar yrði gengið fram gegn mótmælendum. Sá stjórnandi var Jón F. Bjartmarz. Eftir búsó-mótmælin hóf hann máls á því á opinberum vettvangi að vopn yrðu sett í lögreglubíla. Haustið 2014 varði hann svo þá ákvörðun lögreglunnar að flytja inn í leyni, án opinberrar umræðu, hundruð vélbyssa frá Noregi. Það virtist ekki draga úr honum að sérsveit hans sætti þá sérlegri athugun fyrir að hafa nýverið drepið almennan borgara í fyrsta skipti.

h_02567301

Eftir ótrúlega klaufskt vafstur í fjölmiðlum, þar sem aldrei komst á hreint hver hafði gefið leyfi fyrir byssukaupunum og hvort (eða hvað) átti að borga fyrir þær, var ákveðið að skila þeim “við fyrsta hentugleika”. Hvort það hafi nokkurntímann gerst er ósvöruð spurning. Lokaorð Jóns F. Bjartmarz í þessari flausturslegu fjölmiðlarimmu voru: “Þörf lögreglunnar á vopnum er óbreytt og hefur í reynd aukist,” reynt yrði að afla þeirra með öðrum og, að því er virtist, löglegri leiðum.

Þau kunna sig
Íslendingar hafa nú vanist notkun piparúða og harkalegra aðgerða gegn mótmælendum. Þessar aðgerðir hafa verið aðlagaðar venjum og sjálfsmynd landsins. Fyrir líflegustu aktívista vetursins 2008-9 var líka framkvæmd sérleg ögunarlexía. Í áður leynilegri samantekt Geirs Jóns um lögregluaðgerðir vetrarins er því lýst hvernig fylgst var með anarkistum “maður á mann” og hvernig ákveðið var að “kippa þeim úr hópnum” í mótmælum. Þegar mótmæla átti NATO eftir veturinn og almenn þátttaka í útistöðum hafði minnkað komu, í orðum konu sem var á staðnum, “löggan og sérsveitin og [tóku] reiðina sem dvaldi í þeim eftir búsó út á þeim sem mættu.” Þetta mynstur átti eftir að endast langa hríð. Árið 2011 réðust lögreglumenn á frívakt á tvo nímenninga á Laugavegi. Þegar hótað var að hringja í lögregluna svöruðu árásarmennirnirmeð hinum ódauðlega frasa: Við erum lögreglan.

Annar hópur sem í mótmælaleysi síðustu ára hefur fengið að kenna á lögum og reglu er fólk sem hlustar á tónlist utandyra. Eftir hina kaldhæðnislega titluðu Extreme Chillfest 2015 mátti lesa eftirfarandi atvikalýsingar:

Erlendir ferðamenn voru beðnir um að yfirgefa strætóinn á meðan lögreglan hélt Íslendingunum eftir. Síðan fóru þeir að leita á öllum Íslendingunum. … [Stúlka segir að frænka hennar] hafi verið látin strippa fyrir framan lögregluna … „Það er verið að snúa fólk niður og setja það í handjárn á tjaldsvæðinu!“ … Síðan komu stelpur til okkar upp í miðasölu frá tjaldstæðinu en þær grétu og skulfu af hræðslu vegna þess hvernig lögreglan kom fram. … Farið var inní tjaldið mitt án heimildar og án þess að nokkur hafi verið þar … Við tókum á móti fjölda fólks í áfalli í anddyri hátíðarsvæðisins sem treysti sér ekki aftur á tjaldsvæðið sökum ágangs og valdníðslu lögreglumanna … ég er búin að vera hrædd og stressuð í 34 klukkutíma eða frá því að terrorisminn byrjaði…

Eftirköst hátíðarinnar; fundur með þolendum og átakanlegar frásagnir, minntu frekar á afleiðingar gíslatöku en lögregluaðgerðar. Venjulega tengir maður vegatálma, gerræðislegt áreiti, flokkun fólks eftir þjóðerni og stöðugt lögreglueftirlit við stríð eða alræði. Sumarið 2015 voru 200 manna slökunarhátíðir útí sveit tilefni líka. Þetta var ekki hlutlaus armur laganna, heldur göturéttlæti, skáldað á staðnum af lögreglunni.

Mótmæli gegn ofbeldi lögreglunnar á Ísafirði í fyrra. Margir þorðu ekki að mæta af ótta við að það bitnaði á málsmeðferð þeirra hjá embættinu.

Mótmæli gegn ofbeldi lögreglunnar á Ísafirði í fyrra. Margir þorðu ekki að mæta af ótta við að það bitnaði á málsmeðferð þeirra hjá embættinu.

Af einhverjum ástæðum eru afbrot ekki nefnd sínum réttu nöfnum þegar yfirvöld stunda þau. Fingur lögreglumanna eru af sömu sort og fingur annarra manneskja, en þegar þeim er troðið í leggöng konu sem segir “nei” er það ekki nauðgun heldur líkamsleit. Ekki er refsað fyrir þannig nauðganir, heldur borgar ríkið þolandanum úr skattsjóðum fyrir þau, einsog peningar bæti nokkurn skapaðan hlut – og það er þá sjaldan sem bætur fást yfirhöfuð, en fjöldinn allur af þolendum lögreglunnar þorir ekki að fá lögreglumenn kærða, eða getur það ekki.

Kannski ástæðan sé einmitt sú að sá sem býr til lögin getur ekki verið glæpamaður. Lögreglan sé yfir lögin hafin. Þannig vangaveltur eru ekki séríslenskt fyrirbæri. Þeim sem langar að lækna þetta vandamál með löggjöf væri hollt að líta til annarra landa. Víðast hvar fær lögreglan tiltölulega frjálsar hendur, svo lengi sem hún verndar ríkið í leiðinni. Og hvernig gæti það verið öðruvísi? Hver ætti að passa lögregluna, ef ekki hún sjálf? Háttsettur lögreglumaður hefur sagt mér berum orðum að enginn geti passað uppá lögreglumenn nema aðrir lögreglumenn. Þetta er svo auðséð og almennt vandamál að hugtakið sem lýsir því, “hver gætir gæslumannanna?“, má finna í 2400 ára gamalli heimspeki.

Almenningur á reynslulausn
Greiðasta leiðin til að stoppa valdníðslu lögreglumanna er að fulltrúar almennings hafi eftirlit með henni. Því miður virðast hagsmunir lögreglu og fulltrúa fara saman, því þessháttar umbætur hafa iðulega mætt andstöðu beggja aðila. Nú, þegar sérsveitin á að vera vopnuð á fjölskylduhátíðum, tilkynnir ráðherra lögreglumála að “ég hlýt að treysta þeirra mati á þessu” og forsætisráðherra að “hvernig þeir meta stöðuna hverju sinni eru hlutir sem er langbest að ríkislögreglustjóri eða lögreglan í landinu svari fyrir.” Þessir tveir ráðherrar eru, ef það skyldi hafa farið framhjá einhverjum, í Sjálfstæðisflokknum.

Þegar grenslast var fyrir um á hverju mat ríkislögreglustjóra um fjölgun sérsveitarútkalla byggðist gaf hann einfalt, ef ekki einfeldingslegt, svar: “Við erum með samfélag sem er samsett af miklum fjölda erlendra borgara, bæði þeirra sem starfa hér og dvelja hér, ferðamenn, hælisleitendur og svo framvegis.”

Undanfarin þrjú ár hefur sérsveitin drepið einn mann, enginn drepið lögreglumann, og einn útlendingur drepið sjálfan sig vegna þeirrar móttöku sem yfirvöld gáfu honum – yfirvöldin sem nú setja á sig byssur og kenna mönnum einsog honum um hvað er hættulegt að vera Íslendingur í dag.

Forsætisráðherra labbar á "öruggan stað" í Keflavík að tala um hryðjuverk og sérsveitina.

Forsætisráðherra labbar á “öruggan stað” í Keflavík svo hann geti talað um hryðjuverk og sérsveitina.

Lögreglan hefur frá upphafi verið verndarhönd samfélagsgerðarinnar okkar – samfélagsgerðar sem hentar sumum betur en öðrum. Hún er búin til og henni er viðhaldið af flokknum sem lengst hefur ráðið landinu, í þágu fólksins sem fjármagnar og mannar hann. Flokkurinn er breiðfylking sem rúmar bæði íhaldsmenn, verslunarfólk og þjóðernissinna. En langflestir af afgangi þjóðarinnar hafa einhverntímann verið í “árása- og ofbeldisliðinu” sem Ólafur Thors sagði lögregluna vernda ríkið gegn. Þá voru það svo til allir verkamenn. Hrunveturinn voru það skuldarar og umbótasinnar. Þar fyrir utan eru það útlendingar, fíklar, flóttamenn, útihátíðagestir, aktívistar, fátæklingar og mótmælendur.

Öll erum við fangar á reynslulausn – samfélagslegar misfellur sem greiða þarf úr svo land sjoppueigenda og fiskimanna geti siglt lygnan sjó. Ef við látum það samfélag í friði, þá megum við vera í friði líka. Annars er löggunni að mæta.

 

Um heimildir og lesefni

  • Afmælisbæklingur lögreglunnar um eigin sögu er stutt og einföld yfirferð um þróun löggæslu frá alræði sýslumanna til ofríkis stóriðjunnar og þar frameftir götunum.
  • Aðgengilegasta heimild um upphafsár lögreglu í Reykjavík, stofnun ríkislögreglunnar og viðhorf stjórnmálamanna til hennar er ritgerðin Tengsl lögreglu og ríkisvalds á Íslandi 1921-1935 og stofnun íslenskrar ríkislögreglu. Aðrar heimildir um erjur verkamanna og lögreglu í kreppunni eru bækurnar Kommúnistar á Íslandi eftir Hannes H. Gissurarson og bæklingur Hermanns Jónassonar með tillögum að eflingu lögreglunnar í kjölfar Gúttóslagsins. Alþingistíðindi þessara ára eru líka fróðleg og viðamikil lesning.
  • Skemmtileg lítil lofgjörð um upphaf lögreglunnar í Reykjavík, sem gefur forvitnilegar svipmyndir af fyrstu mönnunum sem unnu hér við löggæslu, er Lögreglan í Reykjavík eftir Guðbrand Jónsson, útgefin 1938.
  • Ítarleg heimild um hreinsun Íslands af gyðingum fyrir stríð undir stjórn Hermanns Jónassonar og agameistara lögreglunnar, Agnars Kofoed-Hansen, er MA-ritgerðin Útlendingar og íslenskt samfélag 1900-1940 eftir Snorra G. Bergsson. Hér er stutt saga þess tíma í bloggfærslu.
  • Frekara lesefni um hina ótrúlegu meðferð sem Falun Gong liðar fengu við komuna til Íslands 2002 er að finna í fræðiritinu Arctic host, icy visit eftir Herman Salton. Samantekt hér, þingsályktunartillaga með ítarlegum upplýsingum hér.
  • Viðhorf lögreglumanna til mótmælenda í búsó má meðal annars finna í viðtalsritgerð aðstandanda lögreglumanns, Að baki skjaldborgarinnarSaving Iceland hélt uppi viðamikilli greiningu og fréttamennsku á heimasíðunni sinni, meðal annars um njósnir, eftirför og áreiti lögreglunnar.
This entry was posted in blogg and tagged , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , , on by . */?>

Hryðjuverk sjónvarpsmanna

21. 4. 2017, 20:35

Umfjöllun um hryðjuverk undanfarin ár hefur verið óábyrgasta og versta sjónvarpsefni í heimi. Það hefur leitt til samfélagslegra ranghugmynda og til “varnaraðgerða” sem gera illt verra, auk þess að vera eina ástæðan fyrir því að hryðjuverkin eiga sér stað yfirleitt. Umfjöllunin hefur dregið athygli frá öðrum og mikilvægari málefnum og viðbrögðin við henni hafa rýrt lífsgæði ríkustu samfélaga heims, auk þess að kalla dauða yfir saklaust fólk. Þessi umfjöllun drepur á fullkomlega fyrirsjáanlegan hátt, og hún ætti að hætta.

Hvað gerðist?
Í gær keyrði maður útá Champs-Élysées breiðstrætið í París og skaut lögreglumann. Með þessu tókst honum að gera sjálfan sig, hugmyndafræðina sína, þjóðerni og samfélagsstöðu tafarlaust að heimsfrétt sem enn er ofarlega á baugi nú, sólarhring síðar. Í frönskum miðlum má sjá hasarumfjöllun um vopnin sem hann bar, hvernig nákvæmlega hann steig úr bílnum og hvað hann gerði sekúndubrot fyrir sekúndubrot á leið sinni til fyrirsjáanlegrar frægðar. Andlitsmynd af honum prýðir skjáinn og útlistun á karakter hans og uppruna er rakin ítarlega.

Þennan sama dag dóu um tíu manns í Frakklandi úr bílaumferð. Tugþúsundir dóu úr hungri í heiminum, flestir börn. Tuttugu milljón tonn af koltvíildi brunnu útí lofthjúpinn. Þetta eru merkilegar tölur, og margt mætti gera í vandamálunum sem þær lýsa, en í frönsku sjónvarpi í dag er ekki rætt um það. Í staðinn er verið að breiða út boðskap terrorista að hans eigin beiðni.

Viðbrögðin
Þegar eitthvað verður fyrsta frétt, þá þurfa stjórnmálamenn að bregðast við. Kunningi minn sagði, í kjölfar annarrar árásar nýlega, að yfirvöld þyrftu að “gera eitthvað” einsog til dæmis að “sprengja eitthvað í stórum stíl og hætta þessu PC kjaftæði”. Þetta eru sálfræðilega skiljanleg, en algerlega heilalaus viðbrögð. Enginn verður friðsælli eða vinveittari þegar hann er sprengdur, og fjöldamargir verða reiðari og hatrammari. Í fyrra svaraði forseti Frakklands hryðjuverkamanni í París með því að sprengja til dauða 130 manns í Sýrlandi. Jafnvel ef þeir voru allir hryðjuverkamenn, líka börnin, þá má vænta þess að allir sem þeir þekktu hafi nú fengið ágæta ástæðu til að hata Frakka. Forsetinn hefði sennilega líka sett neyðarlög, ef hann hefði ekki þegar verið búinn að því. Þau hafa verið í samfelldri notkun síðan 2015 og hafa opnað öll heimili Frakklands fyrir heimildarlausum leitum.

Engum að óvörum hafa þær heimildir verið notaðar á múslima fyrst og fremst. Hryðjuverkafár yfirvalda útskúfar þá verklega, bæði á götum úti, í húsleitum og á flugvöllum. Þessháttar stigmatísering minnihlutahóps, hvort sem það eru svartir Bandaríkjamenn vegna glæpa eða múslimar vegna hryðjuverka, er ömurleg fyrir alla innan hópsins og skaðleg samfélaginu. Hún rýrir samúð og tvístrar samfélagshópum á grundvelli fárra atvika af völdum sárafárra fávita.

Ranghugmyndirnar
Þegar vörubíl var keyrt á verslun í Stokkhólmi nýlega sagði einn ættingi minn: “Maður þorir varla að fara þangað núna.” Jæja já? hugsaði ég. Það hefur aldrei verið öruggara að lifa, þrátt fyrir alla hryðjuna. Í Svíþjóð deyja fimm manns í hverri viku í umferðinni, sem telst fáránlega lágt fyrir það stóra þjóð. Enginn hættir við að fara þangað útaf þannig tölum. Það er margfalt líklegra að þú deyjir úr matareitrun í Tælandi en í hryðjuverkum hvar sem þér dettur í hug að ferðast. En úr því að einhver súrrandi ruglaður bjáni rændi trukk í Svíþjóð og athygli allrar veraldarinnar, með óbilandi aðstoð fjölmiðla, fá milljónir jarðarbúa bakþanka um að heimsækja þetta yfirmáta friðsæla land.

Hryðjuverk ná árangri því þau stinga í veikustu bletti mannlegrar sálfræði — og spila á fyrirsjáanleika fjölmiðla. Það er ekki hægt að leiða hjá sér terror-fréttir, því þannig virkar ekki mannssálin. En það má sleppa því að maka hryðjunni yfir skjáinn okkar dag eftir dag, til þess eins að selja fleiri auglýsingar og auglýsa óbeint eftir fleiri hryðjuverkamönnum. Fávitaskapur hefur nefnilega ákveðið lag á að margfalda sig þegar hann sleppur á annað borð laus.

Who wants to be a terrorist?
Íþróttarásir hættu nýverið að sýna myndir af fólkinu sem hleypur í leyfisleysi á völlinn. Ef ekkert sæjist til þeirra, var pælingin, þá hefðu þau ekki lengur ástæðu til vallarhlaupsins. Sama gildir um terror. Hryðjuverk missir marks ef hryllingurinn er ekki breiddur út. En fjölmiðlar leyfa sér að taka þátt, og þessvegna virkar það. Það er einföld leið til að slökkva á hryðjuverkum, sem eru jú sálfræðilega voðaleg en tölfræðilega ómerkileg. Sú leið er að greina frá þeim á sterílan og óspennandi máta.

Fjölmiðlar taka þátt í hryðjuverkum með því að flytja hasarfréttir af þeim. Við getum lítið gert af viti til að svara þeim, og bregðumst því óvitrænt við. Önnur vandamál, sem við getum sannarlega brugðist við, verðskulda athygli okkar. Þau ættu að fá pláss hryðjuverkanna í fréttaflutningi.

This entry was posted in blogg and tagged , on by . */?>